Skora á Bjarna að koma með betri aðferðir

Þegar stórt er spurt.
Þegar stórt er spurt. mbl.is/Eggert

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) skorar á fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins að koma fram með nýjar og betri aðferðir við að semja við heilbrigðisstéttir um launakjör. Í yfirlýsingu frá félaginu er vitnað í orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem hann sagði aðferðir Íslendinga til þess að ná fram niðurstöðu í kjaradeilum meingallaðar.

Fíh segir staðreyndir tala sínu máli, að heilbrigðismenntaðar kvennastéttir sem ynnu vaktavinnu að stórum hluta hjá hinu opinbera væru með lægri dagvinnulaun en aðrir hópar sem þar starfa. Segir að meðaltalstölur sem fjármálaráðuneytið birti um laun ríkisstarfsmanna miði við fullt starf, en að einungis lítill hluti heilbrigðismenntaðra kvennastétta ynni fullt starf og því gæfu tölurnar ekki rétta mynd.

„Starfsumhverfi, vinnutímaskipulag og álag í starfi gerir það að verkum að ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðismenntaðar kvennastéttir sem vinna vaktavinnu treysta sér ekki til þess að vera í háu starfshlutfalli.“

Nægjanlegt fjármagn til að borga fyrir yfirvinnu

Segir að meðaltal starfshlutfalls þessara stétta sé einungis 70 til 80% og að það hafi farið lækkandi á undanförnum árum. Hugmyndir og leiðir til þess að snúa þróuninni við hafi ekki verið til umræðu og öllum tilraunum Fíh til að ræða þessi mál við stjórnvöld hafi verið fálega tekið.

„Þegar kemur að því að greiða yfirvinnu á heilbrigðisstofnunum virðist vera nægjanlegt fjármagn, en þegar kemur að hækkun dagvinnulauna virðast peningarnir yfirleitt ekki vera til. Þessu þarf að breyta.“

Segir í yfirlýsingu Fíh að stjórnvöld beri ábyrgð á því að landsmenn njóti fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. „Staðan er grafalvarleg og skorar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga því á fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins að ganga nú þegar til samninga við ljósmæður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert