Tvöfaldast í launum vegna yfirvinnu

Með úrskurði kjararáðs hækka laun stjórnenda ríkisstofnana um rúmlega 10%.
Með úrskurði kjararáðs hækka laun stjórnenda ríkisstofnana um rúmlega 10%. mbl.is/Hari

Yfirvinnulaun ríkisforstjóra nema allt að helmingi heildarlauna, samkvæmt nýjum úrskurði kjararáðs sem birtur var í gær. Úrskurðurinn er birtur þremur dögum eftir að ráðið var fellt niður en sagður vera frá miðjum júní.

Ekki er auðvelt að ráða í heildarlaun forstjóra út frá úrskurðinum enda er þeim undantekningarlaust úthlutað fastri yfirvinnu með svoköluðum „einingum“ sem ráðast ekki af grunnlaunum þeirra. Hver yfirvinnueining jafngildir þess í stað 9.572 krónum á mánuði og launahæstu ríkisforstjórarnir eiga það allir sammerkt að fá ríflega af þessum einingum.

Ríkisforstjórarnir 48 sem úrskurðað var um fá á bilinu 12 til 135 yfirvinnueiningar á mánuði.

Þannig fær forstjóri Landspítalans 1.290.000 krónur í grunnlaun, en sömu upphæð í yfirvinnu, þegar rýnt er í 135 „yfirvinnueiningar“ hans. Heildarlaun hans eru því 2.580.000 krónur eða sem nemur tvöföldum grunnlaunum hans.

Yfirvinnutímakaup fólks á vinnumarkaði er jafnan greitt með 80% álagi á hefðbundið tímakaup og því má ætla að ráðið telji forstjóra Landspítalans vera í 155% starfi, eða sem jafngildir 62 vinnustundum á viku.

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins fær 479.000 krónur í fasta yfirvinnu ofan á grunnlaun upp á 1.170.000 krónur. Yfirvinnukaupið nemur því 41% af grunnlaunum hans, og má því ætla að starfshlutfall forstjórans sé 123%. Rúmar 49 stundir á viku.

Eftir hækkunina eru 47 af þeim 48, sem ráðið úrskurðaði um, með heildarlaun yfir einni milljón króna á mánuði. Aðeins forstöðumaður Náttúruminjasafns er með lægra, eða 981.000 krónur. Er yfirvinnuhlutfall hans enda aðeins 7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert