Eldur í álverinu á Reyðarfirði

Álverið á Reyðarfirði.
Álverið á Reyðarfirði. Sigurður Bogi Sævarsson

Eldur kom upp í álveri Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði þegar ál lak úr keri fyrr í dag. Óskað var aðstoðar Slökkviliðs Fjarðabyggðar vegna þessa. Minni háttar eldur kviknaði í rafköplum og slöngum í kjallara undir kerskála en vel gekk að ná tökum á ástandinu, segir Guðmundur Sigfússon slökkviliðsstjóri í samtali við fréttastofu mbl.is.

„Það gekk vel að slökkva þennan eld. Við notuðum slökkviduft frá duftkúlu í slökkvibíl frá okkur til þess en síðan var vakt við kerið á meðan lekinn var stöðvaður,“ sagði Guðmundur.

„Hættan felst í því að það geta orðið sprengingar þegar heitt álið lendir á steypu eða rökum fleti. Svo eru kaplar, rafmagnsbúnaður og annað í kjallaranum sem er í hættu þegar svona gerist. Við erum fyrst og fremst að koma í veg fyrir að eldur breiðist út og verja annan búnað,“ bætti hann við.

Ekki er vitað á þessari stundu hvað olli lekanum en Guðmundur sagði atvikið ekki hafa verið alvarlegt.

„Þetta gerist annað slagið og menn eru svo sem vanir og viðbúnir því að fást við svona atvik, bæði starfsmenn álversins og slökkviliðið. En það er öryggisráðstöfun að vakta þetta meðan álið er að kólna,“ sagði Guðmundur jafnframt.

Engar skemmdir urðu á húsnæði álversins en einhverjar skemmdir urðu á lögnum og á kerinu.

Von er á frekari upplýsingum um lekann frá Alcoa Fjarðaráli.

Um klukkan eitt í dag var straumur lækkaður niður í 235 kA vegna leka í keri. Byrjað var að keyra strauminn upp aftur um klukkan hálftvö og var skálinn kominn á fullan straum 50 mínútum síðar, segir í tilkynningu frá upplýsingafulltrúa Alcoa Fjarðaráls. 

Í tilkynningunni kemur einnig fram að brugðist hafi verið við samkvæmt viðbragðsáætlun og að fólki hafi ekki verið hætta búin.

"Í álveri getur alltaf orðið kerleki, það er hluti af rekstri kerskálans. Við erum með góðar viðbragðsáætlanir þegar slíkt kemur upp og vel gekk að bregðast við lekanum sem varð í dag", segir jafnframt í tilkynningunni.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:55.

Eldur kviknaði þegar ál lak úr keri í álverinu á …
Eldur kviknaði þegar ál lak úr keri í álverinu á Reyðarfirði. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert