Fluttur á slysadeild eftir eldsvoða

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna elds í leiguherbergi að Funahöfða 17 A um hálfsex í morgun. Einn var fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar auk áverka í andliti vegna eldsins. Ekki er talið að hann sé í lífshættu.

Fjöldi fólks býr í húsnæðinu en ítrekað hefur verið fjallað um aðstæður þar.

Funahöfði 17a í Reykjavík.
Funahöfði 17a í Reykjavík. mbl.is/Golli

Að sögn varðstjóra slökkviliðsins var maðurinn sem var fluttur á sjúkrahús búinn að slökkva eldinn að mestu í herberginu þegar slökkvilið kom á vettvang en mikill reykur var um allt húsið. Verið er að ljúka reykræstingu og ljóst að skemmdir eru töluverðar. 

Að sögn varðstjóra þekkir slökkviliðið vel til aðstæðna enda ítrekað þurft að sinna útköllum þar.

mbl.is