Hjartagátt lokuð frá og með morgundegi

Þeir sem þurfa þjónustu hjartagáttar munu þurfa að leita á …
Þeir sem þurfa þjónustu hjartagáttar munu þurfa að leita á bráðamóttökuna í Fossvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjartagátt Landspítalans verður lokað eftir daginn í dag og opnar hún ekki aftur fyrr en 3. ágúst. Starfsemi hjartagáttarinnar mun alfarið færast yfir á bráðamóttökuna í Fossvogi, þar sem legurýmum og læknum verður fjölgað. Þar verða hjartasérfræðingar og deildarlæknar af hjartadeild á vakt.

Búast má við miklu álagi á bráðamóttöku og bendir Landspítalinn á að heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og Læknavaktin geti tekið við minna bráðum tilfellum.

Hjartagátt Landspítalans við Hringbraut sinnir bráðaþjónustu við hjartasjúklinga og að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítalans, var allra leiða leitað til þess að halda gáttinni opinni. Það hafi hins vegar ekki verið mögulegt vegna skorts á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum.

Í viðtali við Morgunblaðið í júní sagði hún að fjölgun rýma og lækna á bráðamóttöku myndi ekki duga, enda væri álagið á hjartagáttina jafnvel meira á sumrin en á veturna, ekki síst vegna fjölda ferðamanna.

Ákvörðun Landspítalans um lokun hjartagáttarinnar hefur verið gagnrýnd, meðal annars af forsvarsmönnum Hjartaheilla, þeim Sveini Guðmundssyni formanni og Ásgeiri Þór Árnasyni framkvæmdastjóra. Tók Sveinn þannig til orða í samtali við Morgunblaðið að fyrir hjartasjúklinga geti lokun hjartagáttarinnar verið eins og að loka fyrir aðgang að súrefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert