Borgarlína, stokkur og göng

Með Vatnsmýrarsvæðinu er átt við svæðið sem afmarkast af Öskjuhlíð …
Með Vatnsmýrarsvæðinu er átt við svæðið sem afmarkast af Öskjuhlíð í austri, HÍ svæðinu í vestri og Gömlu-Hringbraut í norðri.

Hefja ætti undirbúning að lagningu vegstokks við Miklubraut frá Snorrabraut og austur fyrir Kringlu auk greiningarvinnu við Öskjuhlíðargöng strax. Þá ætti uppbyggingu Borgarlínu á Vatnsmýrarsvæðinu verði að fullu lokið fyrir árið 2025.

Þetta er meðal tillagna samstarfshóps Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Landspítalans um framtíðartilhögun samgangna á Vatnsmýrarsvæðinu. Hópurinn var skipaður í fyrrahaust og skilaði af sér tillögum í gær. Þær verða teknar fyrir í skipulags- og samgönguráði á næstunni.

Í skýrslunni segir þó að mjög ólíklegt sé að ráðist verði bæði í lagningu stokksins og Öskjuhlíðarganga meðan ekki er komin íbúðabyggð í Vatnsmýrina, í stað flugvallarins. Báðum framkvæmdunum sé nefnilega ætlað að létta á umferð um sömu götur, Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Bústaðaveg.

Öskjuhlíðargöng eiga að létta á umferð af Kringlumýrarbraut, Miklubraut og …
Öskjuhlíðargöng eiga að létta á umferð af Kringlumýrarbraut, Miklubraut og Bústaðavegi. mbl.is/Árni Sæberg

Háskólarnir tveir og Landspítalinn eru meðal stærstu vinnustaða landsins. Talið er að einstakar ferðir á svæðinu, gangandi, hjólandi, strætó- og bílferðir, séu um 25.700 á sólarhring og 60% þeirra séu tilkomin vegna vinnustaðanna þriggja. Ráðgert er að ferðirnar um svæðið verði orðnar 45.000 árið 2025 vegna fjölgunar starfa og íbúa í nýju hverfi sem rís við Hlíðarenda.

Til að koma til móts við þá fjölgun er lagt til að ráðist verði strax í minni aðgerðir til að bæta umferðarflæði á svæðinu. Lokið verði úrbótum á umferðarljósastýringu á Bústaðavegi og Miklubraut. Þá er til skoðunar að bæta við akrein af Bústaðarvegi inn á Kringlumýrarbraut til að bæta umferðarflæði. Mælst er til þess að þessum framkvæmdum sé lokið 2020.

Hvað almenningssamgöngur snertir er lagt til að undirbúningi og uppbyggingu sérreina strætó á svæðinu verði hraðað. Langar umferðarteppur myndast að morgni og kvöldi við Háskólann í Reykjavík en að honum liggur aðeins ein gata og flennibílastæði. Þá verði strætóbiðstöðvar á svæðinu bættar.

Fyrirhuguð brú á milli Vatnsmýrar og Kársness í Kópavogi er einnig nefnd í tillögunum, en sú brú á að bera almenningsvagna, hjólandi og gangandi. Lögð er sérstök áhersla á að uppbyggingu hennar sé hraðað.

Vinnustaðirnir þrír bjóða allir starfsmönnum sínum samgöngusamninga þar sem þau sem kjósa að koma til vinnu öðruvísi en á einkabíl eru styrkt til þess, til dæmis með niðurgreiddu strætókorti. Á styrkurinn að endurspegla sparnað vinnustaðarins af minni bílaumferð og því að þurfa ekki að sjá viðkomandi fyrir bílastæði. Lagt er til að átak verði gert í kynningu þessara samninga í haust.

Bílar setja svip sinn á Háskólasvæðið.
Bílar setja svip sinn á Háskólasvæðið. Ómar Óskarsson

1.919 opin bílastæði eru við byggingar Háskóla Íslands en þeim mun fjölga um 672 á næstunni.

Við Landspítala eru 1.147 bílastæði. Eftir fyrsta áfanga uppbyggingar spítalans verða stæðin 1.600 og við heildaruppbyggingu verða stæðin 2.000.

Við Háskólann í Reykjavík eru bílastæðin 1.293 og ekki gert ráð fyrir að það breytist.

mbl.is