Lögreglumaðurinn krafðist 1,5 milljóna króna af Stundinni

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir er annar ritstjóri Stundarinnar.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir er annar ritstjóri Stundarinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna er maður, sem hefur í þrígang verið kærður fyrir að brjóta kynferðislega gegn barnungum stúlkum og sem aldrei fór fyrir dóm, að hóta að draga unga konu fyrir dóm vegna umfjöllunar um þessar kærur fái hann ekki greiddar háar fjárhæðir innan sólarhrings,“ segir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, í samtali við mbl.is. Hún segir þolendur kynferðisofbeldis oftsinnis hafa gagnrýnt hversu erfitt sé að leita réttlætis fyrir dómstólum. Á sama tíma sé auðvelt að draga blaðamenn fyrir dóm. Þetta sé sorgleg staða.

Lögreglumaður, sem þrjár ungar konur hafa sakað um kynferðisbrot gegn sér er þær voru á barnsaldri, krefst þess að fá greiddar 1,5 milljónir króna í miskabætur frá blaðakonu Stundarinnar. Stundin hefur fjallað ítarlega um mál mannsins og m.a. bent á það í fréttum sínum að þrátt fyrir kærur kvennanna þriggja var hann ekki leystur frá störfum hjá lögreglunni á meðan rannsókn málanna stóð. Ein kvennanna hefur m.a. greint frá því að lögreglumaðurinn hafi verið sendur í útkall að heimili hennar fyrr á þessu ári.

Orðalagi fréttar breytt

„Okkur fannst eitthvað rangt við [kröfur lögreglumannsins] og okkur fannst við ekki getað orðið við því að greiða honum himinháar fjárhæðir eða biðja hann afsökunar,“ segir Ingibjörg Dögg. Hins vegar hafi verið komið til móts við hann og orðalagi fréttar, sem hann gerði athugasemd við, breytt. Það var að sögn Ingibjargar gert til að sýna sanngirni eins og reynt sé að gera er slíkar allar athugasemdir berist.

 „Hann fékk fullt tækifæri til þess að tjá sig við vinnslu fréttarinnar en valdi að skella á blaðakonuna þegar hún hringdi í hann,“ segir hún. „Og í stað þess til dæmis að gera athugasemd við fréttina þá fer hann fram með hótunum.“

„Áskilinn réttur“ til að höfða dómsmál

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður sendi blaðakonu og ritstjórum Stundarinnar kröfubréf fyrir hönd lögreglumannsins í kjölfar birtingar fréttar þann 22. júní. Í bréfinu var gefinn sólarhringsfrestur til að verða við kröfunum um að greiða lögreglumanninum 1,5 milljónir króna sem og að birta opinberlega afsökunarbeiðni. Í bréfinu sagði ennfremur að „að þeim tíma liðnum sé áskilinn réttur til þess að höfða dómsmál á hendur [blaðamanninum] án frekari viðvörunar“.

Krafa lögreglumannsins snýr að orðalagi umræddrar fréttar þar sem vísað er til „nauðgunarkæra“.

Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjórar Stundarinnar, ásamt …
Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjórar Stundarinnar, ásamt lögmanni Stundarinnar í héraðsdómi vegna lögbannsmálsins í vetur. mbl.is/​Hari

Stundin varð ekki við kröfunum eins og fyrr segir en orðalagi fréttarinnar var breytt úr „nauðgunarkærum“ í „kynferðisbrotakærur“.

 „Það er erfitt að skilja það að maður sem hefur helst unnið sér það til frægðar að vera í þrígang kærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum sé með þennan orðhengilshátt,“ segir Ingibjörg Dögg. „Ég velti því fyrir mér hvort að honum þætti raunverulega betra að orða þetta umfjöllunarefni sem meint barnaníð eða misnotkun og kynferðisbrot gagnvart börnum en að tala um nauðgunarkærur.“

Hvað eru önnur kynferðismök?

Ingibjörg segir að það liggi fyrir að hann var kærður fyrir að þröngva sér kynferðislega á börn og bendir á að í hegningarlögum sé nauðgun skilgreind sem samræði eða önnur kynferðismök. „Þá veltir maður fyrir sér hvað felist í öðrum kynferðismökum,“ segir hún og bendir ennfremur á að fyrir hendi séu  dómafordæmi um að þukl á kynfærum, líkt og ungu konurnar saka lögreglumanninn um, sé skilgreint sem önnur kynferðismök. „Þolendur hafa ítrekað gagnrýnt dómskerfið vegna þess hversu erfitt það reynist að leita réttlætis en flestar kærur vegna kynferðisglæpa eru látnar niður falla og fæstir þolendur sjá gerendur sína fara fyrir dóm. En það er mjög auðvelt að draga blaðamenn fyrir dóm og þar hafa þeir verið dæmdir fyrir að nota einstaka orð. Þeir hafa ítrekað þurft að sæta refsingu vegna þess að niðurstaða dómara hefur verið sú að heppilegra hefði verið að nota annað orðalag.“

Nefnir hún sem dæmi dómsmál þar sem blaðamenn DV voru kærðir og dæmdir fyrir að nota orðið „rannsókn“ en ekki „skoðun“. Mannréttindadómstóll Evrópu komst síðar að því að íslenska ríkið hefði brotið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlamannanna í því máli.

Dæmd fyrir að nota orðið „mansal“

Þá var Ingibjörg Dögg sjálf ásamt Jóni Trausta, meðritstjóra sínum á Stundinni, dæmd fyrir að nota orðið „mansal“ í umfjöllun um aðstæður nektardansara. Þar horfði dómari til skilgreiningar á mansali í íslenskri orðabók en hafnaði skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna jafnvel þó að sérstaklega hafi verið tilgreint í greininni að stuðst væri við þá skilgreiningu.

„Þetta er sá veruleiki sem blaðamenn búa við,“ segir Ingibjörg. „Og fjölmiðlar búa stöðugt við þá ógn að hver sem er getur dregið þá fyrir dóm fyrir nánast hvað sem er. Þetta mál undirstrikar að okkar mati fáránleikann í því.“

Ingibjörg Dögg Dögg: Í þessi dómsmál fara peningar sem hefðu …
Ingibjörg Dögg Dögg: Í þessi dómsmál fara peningar sem hefðu ellegar nýst til að styrkja ritstjórnirnar, þeir renna frá fjölmiðlunum í vasa lögmanna. Þannig að það er verið að nota stefnur sem tæki til þöggunar vegna þess að þeir vita að litlum fjölmiðlum blæðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingibjörg Dögg segir að Stundin hafi hvorki verið að úrskurða um sekt né sakleysi lögreglumannsins í umfjöllun sinni heldur fjallað um staðreyndir málsins. „Við höfum greint frá því að hann var kærður og að málin voru látin niður falla. Hann fór aldrei fyrir dóm vegna þeirra. En það sem hefur verið gagnrýnt er að meðan rannsókn stóð þá hélt hann stöðu sinni innan lögreglunnar. [...] Við höfum gefið honum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri en hann hefur hafnað því.“

Úr vasa fjölmiðla til lögmanna

Spurð hvort hún eigi von á því að lögreglumaðurinn höfði mál gegn Stundinni segist hún ekki getað svarað því. „Við mætum því ef svo ber undir. Það er sorglegt að þetta skuli vera staða fjölmiðla, að þurfa statt og stöðugt að vera að standa í þessu. Í þessi dómsmál fara peningar sem hefðu ellegar nýst til að styrkja ritstjórnirnar, þeir renna frá fjölmiðlunum í vasa lögmanna. Þannig að það er verið að nota stefnur sem tæki til þöggunar vegna þess að þeir vita að litlum fjölmiðlum blæðir.“

Ingibjörg bendir ennfremur á að dómstólar hafa oft látið málskostnað niður falla þegar mál vinnast sem þýðir að fjölmiðlar sitja engu að síður uppi með kostnaðinn sem fylgir því að verjast svona tilhæfulausum stefnum í dómssal.

Konurnar þrjár sem kært hafa lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot hafa allar stigið fram undir nafni og sagt frá reynslu sinni í fjölmiðlum. Þær segja hann  hafa þuklað á kynfærum sínum er þær voru börn. Ein þeirra var stjúpdóttir hans er meint brot áttu sér stað og hefur hún m.a. sagt hann hafa stungið fingri inn í leggöng hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert