Með meðvitund strax eftir fallið í sprunguna

Björgunarfólk að störfum við Búrfellsgjá á miðvikudagskvöld.
Björgunarfólk að störfum við Búrfellsgjá á miðvikudagskvöld. Ljósmynd/Landsbjörg

Kona á miðjum aldri sem féll í Búrfellsgjá á miðvikudagskvöld er erlendur ferðamaður. Hún var í fjallahjólreiðahópi á vegum íslensks fyrirtækis með fjölskyldu sinni undir leiðsögn reynds leiðsögumanns. Um 50 björgunarsveitarmenn sinntu útkallinu auk lögreglu og sjúkraliðs. 

Björgunarsveitarfólk segir að aðstæður á vettvangi hafi verið góðar, björgunaraðgerðin hafi gengið vel og konan hafi verið með fulla meðvitund eftir fallið í sprunguna.

Mbl.is ræddi við Frey Inga Björnsson björgunarsveitarmann sem var á vettvangi og tók þátt í að bjarga konunni úr sprungunni. Freyr sagði mikla mildi hve konan hafi sloppið vel eftir fallið, en hún úlnliðsbrotnaði og hlaut skrámur í andliti. Konan gat sjálf gengið frá slysstað að sjúkrabíl, að því er sagði í tilkynningu Landsbjargar. 

Úr sprungunni sem konan féll í.
Úr sprungunni sem konan féll í. Ljósmynd/Landsbjörg

„Við náðum að senda niður lækni úr okkar röðum sem vinnur á bráðamóttökunni og er með fjallabjörgunarbakgrunn. Hún sinnti fyrstu skoðun, fyrstu hjálp og gat verkjastillt konuna,“ segir Freyr. 

Hann segir allt hafa verið gert til þess að huga að öryggi konunnar og björgunarstarfsmanna. „Við vinnum yfirvegað og gerum allt til þess að leggja okkur ekki í hættu. Við sem viðbragðsaðilar viljum gera þetta fagmannlega, það er ekki fagmannlegt að fleiri slasist í hamagangi í leiðinni,“ segir Freyr.

Haft var samband við fjallahjólreiðafyrirtækið við vinnslu fréttarinnar. Fyrirtækið staðfesti að konan hafi verið undir handleiðslu leiðbeinanda, reynds leiðsögumanns sem þekki leiðina vel. Þá hafi hjólreiðaleiðin verið miðlungsleið fyrir vant hjólreiðafólk.  

Björgunarmenn að störfum við sprunguna.
Björgunarmenn að störfum við sprunguna. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert