„Vinnur ekki störukeppni við ljósmæður“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þakkar fyrir að það sé Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, ekki hann sjálfur, sem beri ábyrgð á pistli sem birtur var á vef ráðuneytisins um kjaradeilu ljósmæðra. Kári skrifar Bjarna opið bréf í Fréttablaðinu í dag.

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson.

„Pistillinn er í símskeytastíl og er greinilega ætlað að sýna okkur fram á að við Íslendingar gerum býsna vel við ljósmæður. Ég er feginn því að þú berð ábyrgð á honum en ekki ég.


Þriðja málsgreinin í pistlinum bendir á að á síðasta áratug hafi stöðugildum ljósmæðra á Íslandi fjölgað um 33% en fæðingum fækkað um rúm 8%. Við eigum sjálfsagt að draga þá ályktun að afkastageta ljósmæðranna okkar hafi minnkað í einhvers konar hlutfalli við vaxandi frekju þeirra. Þetta bréf mitt til þín skrifaði ég vegna þess að þú ert drengur góður og ég er viss um að þér eru ekki kunnugar eftirfarandi staðreyndir, annars myndirðu ekki láta svona,“ skrifar Kári í bréfinu til Bjarna.

Ljósmæður sem hættu störfum á sunnudag lögðu skó sína á …
Ljósmæður sem hættu störfum á sunnudag lögðu skó sína á tröppur Stjórnarráðsins. mbl/Arnþór Birkisson

Þar bendir Kári fjármálaráðherra á hversu mikið hafi dregið úr ungbarnadauða á Íslandi og þátt ljósmæðra í því.

„Bjarni, þú hlýtur að hafa þetta allt í huga þegar þú metur framlag þeirra til íslensks samfélags. Staðreyndin er svo sú að á meðan stöðugildum ljósmæðra hjá ríkinu hefur fjölgað um 33% og fæðingum hefur fækkað um meira en 8% hafa viðfangsefni ljósmæðra orðið flóknari með ári hverju, konur eignast börn sín eldri, og þyngri, sem fylgir aukin tíðni meðgönguvandamála, og ýmislegt af því sem áður var á höndum lækna hefur flust yfir á þær.

Bjarni, þú verður að gera þér grein fyrir því að þú vinnur ekki störukeppni við ljósmæður. Það eina sem hefur áunnist með tilraun þinni til þess er að hrekja stóran hóp þeirra í flugfreyjustörf og fleiri eru á leiðinni. Sú hætta er fyrir hendi að afleiðingin verði löskuð börn og aukinn ungbarnadauði. Ég veit fyrir víst að þú ert mér og öllum öðrum Íslendingum sammála um að slíkt sé óásættanlegt. Þess vegna ráðlegg ég þér að bjóða þeim betur, vegna þess að aðrar stéttir munu ekki nota þær sem fordæmi, til þess er framlag þeirra til velferðar í samfélagi okkar of sérstakt,“ skrifar Kári Stefánsson en hér er hægt að lesa pistilinn í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert