Áhrifin eiga eftir að koma í ljós

Hér má sjá drónaskot af skriðunni í Hítará. Ljóst er …
Hér má sjá drónaskot af skriðunni í Hítará. Ljóst er að um umfangsmiklar náttúruhamfarir er að ræða. Ljósmynd/Gísli Friðjónsson

„Það er ómögulegt að átta sig á þessu,“ segir Ólafur Sigvaldason, formaður Veiðifélags Hítarár, um áhrif grjótskriðunnar sem féll úr Fagraskógarfjalli í nótt. Um miklar hamfarir er að ræða þar sem nokkur hundruð metra breið skriðan dreifir úr sér yfir dalinn og Hítará.

Ólafur var á leið sinni að ánni þegar blaðamaður náði af honum tali. Hann segir ekki hægt að meta það tjón sem á ánni verður af skriðunni sem stendur þar til kemur í ljós hvaða leið áin brýtur sér þaðan sem hún stíflast af skriðunni.

Hann segir það ljóst að skriðan muni hafa einhver áhrif á veiði við Hítará en hve mikil sé enn órætt. Ljóst er að nokkrir kílómetrar af ánni komi til með að þorna upp en ekki er víst að miklar breytingar verði á ánni neðarlega þar sem helstu veiðistaðir árinnar eru. „Ég veit ekki hvað ég á að halda. Þetta verður bara að koma í ljós.“

Þá segir Ólafur að berghlaup séu það umfangsmiklar náttúruhamfarir að ekkert sé hægt að gera nema bíða og vona að málin þróist á besta veg.

Hítará er ein af vinsælli og betri veiðiám á Vesturlandi og veiðin í henni góð, en veitt er á sex stangir í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert