Enn hrynur úr fjallinu

Skriðan féll úr Fagraskógarfjalli við Hítardal
Skriðan féll úr Fagraskógarfjalli við Hítardal Ljósmynd/Erla Dögg Ármanssdóttir

„Þetta er algjör leðja og maður getur lítið skoðað þetta, en skriðan stíflaði ána alveg.“ Þetta segir Erla Dögg Ármannsdóttir, bóndi á bænum Hítardal, þar sem skriða féll úr Fagraskógarfjalli fyrr í dag. Hún segir enn hrynja úr fjallinu.

„Það fór stór öxl úr fjallinu. Mjög stór skriða, löng, breið og há,“ segir Erla. Hún og dóttir hennar fóru saman á sexhjóli að skriðunni og segir hún að vel heyrist að áfram sé að hrynja úr fjallinu, þótt ekki sé hægt að sjá það vel vegna þoku.

Fyrir ofan skriðuna er nú byrjað að myndast lón.
Fyrir ofan skriðuna er nú byrjað að myndast lón. Ljósmynd/Erla Dögg Ármanssdóttir

Erla segir að lögreglan sé á staðnum ásamt sérfræðingum frá veðurstofunni og mönnum frá Landsbjörg.

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni stíflar skriðan ána. Erla segir að áhrifin af því sé lón sem sé að verða til fyrir aftan skriðuna og að áin muni líklega finna sér farveg meðfram henni þegar hækki í lóninu. „Þá mun hún líklega ryðja sér leið niður í Tálma og væntanlega eyðileggja þá á ef allt rennslið fer þangað,“ segir Erla, en Tálmi er mun minni hliðará sem hún segir að geti ekki tekið við öllum þessum vatnsflaumi.

Gísli Friðjónsson flaug dróna yfir skriðuna fyrr í dag. Eins …
Gísli Friðjónsson flaug dróna yfir skriðuna fyrr í dag. Eins og sjá má er um miklar hamfarir að ræða sem stífla ána. Ljósmyund/Gísli Friðjónsson

Að sögn Erlu þarf að ná að opna farveginn í ánni. „Það verður gríðarleg vinna,“ segir hún. Hún hafi rætt við sveitunga sinn sem hafi unnið á gröfu til fjölda ára og hann hafi sagt að það þyrfti að grafa milljónir rúmmetra til að komast í gegnum leðjuna. „Gríðarleg vinna, en hægt,“ hafi hann sagt.

Dóttir þeirra Erlu og Finnboga Leifssonar, sem búa í Hítardal, vaknaði í nótt á milli fimm og sex við drunur. Segir Erla að hún hafi talið að um þrumur væri að ræða og farið að sofa á ný. Þau hafi svo áttað sig á að skriðan hafi fallið í morgun.

Skriðan er risastór, eins og sjá má á myndinni.
Skriðan er risastór, eins og sjá má á myndinni. Ljósmynd/Erla Dögg Ármanssdóttir

Fyrir utan skemmdirnar á ánni segir Erla að skriðan hafi farið yfir veiðimannaveg og girðingar, en nái ekki inn á tún. „Áin er aftur á móti stóra málið.“

Hún segir að enginn hafi átt von á þessu úr Fagraskógarfjalli, en það sé gróið fjall. Menn hafi frekar horft til Grettisbælis sem sé sandfjall. Segir hún að ekki sé vitað um að skriður hafi áður fallið úr þessu fjalli, nema þá mjög litlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert