Lenti í marglyttuhjörð á Ermarsundinu

Jón býr sig undir sundið.
Jón býr sig undir sundið. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta miðar allt vel áfram. Jón er hress og kátur og líður vel,“ segir Benedikt Hjartarson, fyrrverandi Ermarsundskappi og aðstoðarmaður Jóns Kristins Þórssonar sem lagði af stað yfir Ermarsundið fyrr í morgun.

Benedikt segir aðstæður vera góðar. Á svæðinu er blíðskaparveður og sjórinn er fallegur með þægilegum öldugangi fyrir sundkappann. „Allir um borð eru ánægðir.“

Aðspurður segir Benedikt að þeim miði aðeins hægar en búist var við en að sama skapi býst hann við meiri krafti við hinn svokallaða „grafreit draumanna“, þessar síðustu mílur sundsins þar sem flestir gefast upp.

Veður og sjófar hefur reynst Jóni vel það sem af …
Veður og sjófar hefur reynst Jóni vel það sem af er sundi. Ljósmynd/Aðsend

Benedikt segir erfitt að reyna að áætla hvenær þeir komi í land þar sem lítið þarf út af að bera til að hægist á þeim. „Eins og er er þó ekkert sem bendir til annars en að þetta muni ganga vel.“

Sjórinn er nú um sautján gráður sem er nokkuð ólíkt sjóhitanum í fyrri sundum Jóns við Íslandsstrendur. Benedikt segir þó að þau hafi lent í marglyttuhjörð sem hafi eflaust fylgt hitastiginu en að Jón hafi ekki látið það á sig fá og haldið ótrauður áfram. 

Ásamt Benedikt eru þau Sigrún Þ. Geirsdóttir sem synti Ermarsundið árið 2015, Arnar Þór Egilsson og Jóhannes Jónsson, Jóni til aðstoðar á sundinu. Auk þeirra eru svo í áhöfninni skipstjóri og aðstoðarskipstjóri og að lokum eftirlitsmaður frá Sundfélaginu sem fylgist með gangi mála og að öllum reglum sé fylgt.  



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert