„Finnst eins og ég hafi klárað þetta“

Sjósundkappinn Jón Kristinn Þórsson lagði af stað yfir Ermarsundið frá …
Sjósundkappinn Jón Kristinn Þórsson lagði af stað yfir Ermarsundið frá Shakespeare-strönd í Dover eldsnemma í gærmorgun. Ljósmynd/Jóhannes Jónsson

„Ég sá landið og reiknaði með að þetta væri komið, svona þrír, fjórir tímar eftir. En það gerðist ekki, þetta var alltaf sama vegalengd og ég spólaði bara þarna í straumnum,“ segir Jón Kristinn Þórisson sundkappi sem gerði heiðarlega tilraun til að synda yfir Ermarsundið í gær.

Sundið fór vel af stað, aðstæður voru eins og best verður á kosið. En eftir að hafa synt 47 kíló­metra á 14 klukku­stund­um varð Jón frá að hverfa þegar einungis fjórir kílómetrar voru í land við Frakklandsstrendur. Jón var kominn á svæði sem kall­ast Gra­freit­ur draumanna. Þar reyndust sjáv­ar­föll­in of sterk og báru hann frá landi. „Það voru allir að hvetja mig áfram að reyna að komast í gegnum þetta en ég hafði bara ekki þrek í það,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

„Þegar straumurinn er svona er ekki hægt að komast í gegn þarna. Nafnið segir líka sitt, Grafreitur draumanna, þar sem draumurinn manns er jarðaður,“ bætir hann við og hlær, en fjölmargir sundkappar hafa þurft að hætta sundi á þessum slóðum þar sem straumarnir eru þungir og erfiðir.

Ekki velkominn í marglyttupartýið

Jóni líður hins vegar vel eftir sundið og er mjög sáttur. „Mér finnst eins og ég hafi klárað þetta, þó að ég hafi ekki náð almennilega í land. En ég er alveg sáttur núna, en með fullt af verkjum í líkamanum eins og flestir sem gera svona. Ég er vel sólbrunninn á bakinu og með verki í liðum í höndunum. Svo er röddin orðin öðruvísi.“

Jón lenti í ýmsum ævintýrum á sundinu á þeim 14 klukkustundum sem hann var í sjónum. Marglyttuhjörð sem hann synti í gegnum er einna minnisstæðust. „Það var reyndar mjög fallegt, marglyttur í alls konar litum, þetta var góð tilbreyting. En ég var svo sem ekkert velkominn í þetta partý og þær létu mig alveg vita af því,“ segir Jón. Hann fann vel fyrir stungunum, en segir það ekki vont að vera stunginn af marglyttu, bara óþægilegt. „Ég hef upplifað þetta áður og maður heldur bara áfram að synda þó að maður sé stunginn.“

Ætlaði bara að hlaupa maraþon „eða eitthvað“

Jón er vanur sjósundmaður í dag en fyrir fimm árum var sundkunnátta hans ekki upp á marga fiska. „Þetta byrjaði árið 2013, þá langaði mig að gera eitthvað, hlaupa maraþon eða eitthvað,“ segir Jón. Stuttu seinna rakst hann á Drangeyjarsundið og hugsaði mér sér: „Já, best að synda það, það er örugglega skemmtilegt.“ Hann undirbjó sig með því að fara á skriðssundsnámskeið þar sem hann segir að hann hafi ekki kunnað að synda.

Jón lauk Drangeyjarsundinu árið 2014 og ári seinna synti hann frá Vestmannaeyjum til Landeyjarsands. Ermarsundið var svo næsta skref.

Eftir 14 klukkustundir í sjónum var gott að koma um …
Eftir 14 klukkustundir í sjónum var gott að koma um borð í bátinn og setja upp loðhúfu. Ljósmynd/Jóhannes Jónsson

Reyndi að fá vorkunn frá fyrri Ermarsundsförum

Jón er reynslunni ríkari eftir ævintýri helgarinnar og þakkar hann fylgdarliðinu sem studdi hann í einu og öllu. Með honum í för eru tveir fyrrverandi Ermarsundsfarar, þau Benedikt Hjartarson sem synti yfir sundið árið 2008 og Sigrún Þ. Geirsdóttir sem synti árið 2015. Auk þeirra voru Arn­ar Þór Eg­ils­son og Jó­hann­es Jóns­son, Jóni til aðstoðar á sund­inu.

„Ég var að reyna að fá vorkunn á tímabili um að þau myndu taka mig upp því það gerist ýmislegt í hausnum í svona sundi, en ég fékk enga vorkunn og var látinn synda áfram, eins og það á að vera. Þetta er einvalalið, besta lið sem hægt var að velja í svona verkefni, þau þekkja þetta út og inn,“ segir Jón.

Jón Kristinn undirbjó sig vel fyrir sundið.
Jón Kristinn undirbjó sig vel fyrir sundið. Ljósmynd/Aðsend

Ekki til í annað Ermarsund strax

Þegar Jón þurfti að játa sig sigraðan eftir Ermarsundið tók við heitt bað og sturta og að lokum langþráður svefn. Þegar blaðamaður náði tali af honum í morgun var Jón að fá sér morgunmat. „Og bjór með.“

Jón segist lítið vera farinn að hugsa um næstu sundtök. „Eins og staðan er núna langar mig ekkert að synda Ermarsundið aftur, en ég er með ýmislegt í bígerð. Ég bíð eftir góðu sumri og reyni að fara upp á Skaga en það verður að koma í ljós. Það á eftir að klára það sund, en hvenær gott sumar kemur á Íslandi, það veit ég ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert