Ákærður fyrir að drepa bróður sinn

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Val Lýðssyni fyrir …
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Val Lýðssyni fyrir manndráp. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur ákært Val Lýðsson fyrir manndráp á bænum Gýgjarhóli 2 í Bláskógabyggð aðfaranótt laugardagsins 31. mars 2018, en í ákæru segir að hann hafi veist með ofbeldi að bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, með þeim afleiðingum að hann lést.

Valur var búsettur á Gýgjarhóli en bróðir hans Ragnar var þar í heimsókn.

Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara sló Valur bróður sinn ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama, auk þess að sparka og/eða trampa ítrekað á höfði hans og líkama. Af þessu hlaut Ragnar margvíslega dreifða áverka á líkama og höfði.

Ragnar hlaut alvarlegan höggáverka ofarlega vinstra megin á enni, sem olli sári á hörundi, blæðingu innan í höfuðkúpu og snöggri breytingu á meðvitundarstigi. Af höggáverkanum hlutust einnig ógleði, svimi og uppköst.

Þetta leiddi til þess að Ragnar lést af banvænni innöndun magainnihalds.

Fjórir einstaklingar gera einkaréttarkröfur í málinu og krefjast 10 milljóna króna í miskabætur, hver fyrir sig. 

Málið gegn Val verður höfðað fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert