Bandaríkjamenn 40% ferðamanna

Ferðamenn við leirhverina í Námaskarði bregða á leik.
Ferðamenn við leirhverina í Námaskarði bregða á leik. mbl.is/Brynjar Gauti

Brottförum erlendra ferðamanna frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í júní fjölgaði um 5,4% milli ára, eða um 12 þúsund. Var heildarfjöldinn 234 þúsund og voru Bandaríkjamenn langfjölmennastir eða um 40% af heildarfjöldanum. Frá áramótum hefur um ein milljón erlendra farþega farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,5% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.

Samkvæmt nýjustu tölum Ferðamálastofu er veruleg fækkun í brottförum Þjóðverja og íbúa Skandinavíu. Fækkaði Þjóðverjum um 24,3% á milli ára, eða sem nemur um fimm þúsund farþegum. Fækkun Skandinavíubúa er einnig 24,3% eða rúmlega fimm þúsund farþegar. Farþegum frá Bretlandi fækkar um 7,4%, frá Hollandi um 10,5% og Frakklandi um 10,6%.

Aftur á móti fjölgar farþegum frá Eystrasaltslöndunum (21,7%), Indlandi (25,7%) Póllandi (34,9%) og Spáni (8%).

Bandaríkjamenn eru sem fyrr segir langstærsti hópur ferðamanna hér á landi, en þeir eru um 40% allra ferðamanna. Þjóðverjar koma næstir og eru um 7%. Bandaríkjamönnum hefur fjölgað mikið undanfarin ár, en fjöldi þeirra árið 2014 var 21 þúsund í júní, en er nú kominn upp í 93 þúsund.

Um 71 þúsund Íslendingar fóru utan í júní í ár eða 14,4% fleiri en í júní 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til júní tæp 333 þúsund talsins eða 11,7% fleiri en á sama tímabili árið 2017.

Lesa má nánar um talningu Ferðamálstofu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert