Ekki nægilegar vísbendingar um lögbrot

Samkeppniseftirlitið segist ekki hafa nægilegar vísbendingar um að RÚV hafi …
Samkeppniseftirlitið segist ekki hafa nægilegar vísbendingar um að RÚV hafi brotið samkeppnislög til þess að hefja rannsókn. mbl.is/Eggert

Samkeppniseftirlitið telur ekki að nægilegar vísbendingar séu um að RÚV hafi brotið samkeppnislög til þess að stofnunin hefji formlega rannsókn, að því er kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla frá stofnuninni. Eftirlitsstofnunin gefur hins vegar aðilum á auglýsingamarkaði tækifæri til þess að koma á framfæri fleiri athugasemdum áður en endanleg ákvörðun er tekin um hvort skuli hefja formlega rannsókn á háttsemi Ríkisútvarpsins ohf. á auglýsingamarkaði vegna HM í knattspyrnu.

Síminn hf. sendi Samkeppniseftirlitinu kvörtun 11. júní vegna háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði í tengslum við HM karla í knattspyrnu. Þá bárust stofnuninni einnig óformlegar ábendingar af sama toga frá öðrum keppinautum fyrirtækisins.

Í frummati Samkeppniseftirlitsins, sem fylgir tilkynningunni, kemur fram umkvörtunarefni Símans vegna RÚV. Síminn vill meina „að skilyrði fyrir kaupum á tilteknum auglýsingaplássum í tengslum við sýningar frá HM séu lágmarkskaup á tilteknu magni af auglýsingum.“ Einnig segir Síminn „að vikið sé verulega frá lögbundinni gjaldskrá við sölu á tilteknum auglýsingaplássum í tengslum við sýningar frá HM.“

Fjölmiðlanefnd skoðar RÚV

RÚV hefur verið krafið um svör í tvígang af Samkeppniseftirlitinu, en í þeim svörum kemur fram að „auglýsingapakkar, auglýsingaleiðir og auglýsingamagn þeim tengdum hafi haft þá einu þýðingu að ákvarða forgang við niðurröðun birtinga.“ Jafnframt er tekið fram að enginn áskilnaður sé gerður um lágmarkskaup og umræddir samningar afmarkast við HM, engin önnur binding sé gerð vegna samninga við RÚV.

RÚV hefur upplýst Samkeppniseftirlitið um að fyrirtækið hyggist birta verðskrá fyrr og að RÚV ætli að leita leiða til þess að auka gagnsæi hvað verðskrá varðar.

Samkeppniseftirlitið hefur átt í samskiptum við fjölmiðlanefnd vegna umkvörtunar Símans, en nefndin hefur eftirlit með því hvort farið sé eftir fjölmiðlalögum og lögum um Ríkisútvarpið. Fjölmiðlanefnd hefur upplýst Samkeppniseftirlitið um að nefndinni hafi einnig borist kvörtun frá Símanum vegna RÚV. Sú kvörtun barst fjölmiðlanefnd 25. maí og er málið enn til meðferðar hjá nefndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert