Sirkustjaldið Jökla reist í Vatnsmýri í dag

Sirkustjaldið Jökla var reist nú í kvöld.
Sirkustjaldið Jökla var reist nú í kvöld. mbl.is/Valli

Sirkustjaldið Jökla reis í Vatnsmýri í dag, en Sirkus Íslands er fyrsti íslenski sirkusinn sem býr yfir slíku tjaldi sem fjármagnað var með söfnun í gegnum Karolinafund. Fyrsta sýning í tjaldinu verður á föstudag eða 13. júlí.

„Við erum með tvær mismunandi sýningar. Þetta er annars vegar fjölskyldusýning til þess að fagna því að við erum búin að vera með sirkus í tíu ár á Íslandi. Svo erum við líka með fullorðinssýningu sem heitir Skinnsemi og við höfum verið með í nokkur ár, en með nokkra uppfærslu á hverju ári. Þannig að það eru ný atriði,“ segir Eyrún Ævarsdóttir sirkuslistakona í samtali við mbl.is.

Spurð um hvað felst í fullorðinssýningu segir Eyrún nafngift sýningarinnar, Skinnsemi, vísa til þess að það sé hugsanlega sýnt eitthvað meira skinn en í fjölskyldusýningunni. „Við erum líka að fá smá útrás fyrir fullorðinshúmorinn okkar í þessari sýningu, eitthvað sem er ekki alveg viðeigandi á fjölskyldusýningunni,“ bætir hún við.

Eyrún segir fjölskyldusýninguna alls ekki síðri. „Þetta er alltaf sami hópur sem er mikið að bæta sig og ekkert að óttast þó maður hafi komið áður. Við erum með loftfimleika og eitthvað sem er kallað chinese pole sem er sex metra há súla. Svo erum við með rosalegt hóp-juggl-atriði, alveg fimm sem juggla saman, trúðinn og það er alveg af nógu að taka.“

Sirkushópurinn sér sjálfur um að reisa tjaldið sem sýningar hópsins fara fram í. Eitthvað dróst á langinn að koma tjaldinu upp í dag, en það var aðallega vegna veðurs. „Tjaldið er hannað til þess að standast talsverðan vind, en það er aðallega þegar við erum að reisa það sem það þarf að hafa varan á,“ segir Eyrún.

Sýningar Sirkus Íslands verða helgarnar 13.-15. júlí og 20.-22. júlí í Reykjavík og svo fer hópurinn norður og verður á Akureyri yfir verslunarmannahelgi.

Samkvæmt Eyrúnu er það ekki rigningunni að kenna að ekki eru fleiri helgar sem sýningar standa í sumar. „Við erum að prófa okkur áfram hvernig sé best að gera þetta, enda fyrsti sirkusinn sem kaupir svona tjald og það þarf að sjá hvað hentar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert