Rannsókn á vettvangi lokið í bili

Skriðan er talin ein sú stærsta á sögulegum tíma á …
Skriðan er talin ein sú stærsta á sögulegum tíma á Íslandi. mbl.is/Sumarliði Ásgeirsson

Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands hafa lokið vinnu sinni við mælingar og rannsóknir á skriðunni í Hítardal í bili og fer dagurinn í dag, sem og næstu dagar, í úrvinnslu gagna. Þetta staðfestir Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur á vakt, í samtali við mbl.is.

Sérfræðingar Veðurstofunnar unnu á vettvangi fram á kvöld í gær, sunnudag. Magni segir að þó að vinnu á vettvangi sé lokið í bili sé líklegt að farnar verði fleiri ferðir á staðinn.

Á vef Veðurstofunnar segir að stöðugt grjóthrun og smáskriður hafi verið úr skriðusárinu eftir hrunið og að viðbúið sé að það haldi áfram næstu daga. Þá gæti orðið hrun í hlíðunum í kring um sárið, en ekki er búist við öðrum atburðum af þessari stærðargráðu.

Skriðan sem féll úr Fagraskógarfjalli á laugardag er talin vera ein stærsta skriða sem fallið hefur á sögulegum tíma á Íslandi. Miðað við fyrstu mælingar er hún 10 til 20 milljón rúmmetrar, en von er á nákvæmari tölum frá Veðurstofunni á næstu dögum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert