214.000 kr. launahækkun án auglýsingar

Páll Matthíasson er núverandi forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson er núverandi forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Laun forstjóra Landspítalans voru hækkuð um 214.000 krónur með úrskurði kjararáðs árið 2011 án þess að kjararáð birti upplýsingar um það opinberlega. Þetta hefur mbl.is fengið staðfest frá fjármálaráðuneytinu.

Í lögum um kjararáð, sem voru í gildi þar til ráðið var lagt niður um mánaðamótin, sagði að ráðið skyldi „birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti.“

Ákvörðun um launahækkun forstjórans var hins vegar ekki birt almenningi, en í úrskurði frá árinu 2011 þegar launahækkunin tók gildi segir einfaldlega:

„Ákvörðun kjararáðs um mánaðarlaun og einingafjölda verður birt með bréfum sem send verða hverjum og einum.“

Ekki er því útilokað að fleiri ríkisforstjórar hafi árið 2011 fengið launahækkun án þess að hún væri birt almenningi og kunna þau launakjör jafnvel að vera enn í gildi.

Yfirvinnueiningum fjölgað

Laun Landspítalaforstjóra voru ákvörðuð árið 2010 og honum þá úrskurðaðar 100 yfirvinnueiningar á mánuði. Í úrskurðum ráðsins, sem birtir eru á heimasíðu þess, er síðan ekki vikið orði að launakjörum forstjórans þar til nú um mánaðamótin þegar kjararáð úrskurðaði um laun 48 forstöðumanna ríkisstofnana.

Því hefði mátt ætla að forstjórinn hefði frá árinu 2010 og þar til í síðasta mánuði tekið laun í samræmi við úrskurðinn frá árinu 2010. Í honum er forstjórinn settur í launaflokk 141 og úrskurðað að hann hafi 100 yfirvinnueiningar á mánuði. Í forstjórapistli sínum fyrir helgi greinir forstjórinn hins vegar frá því að hann hafi um árabil þegið 133 yfirvinnueiningar á mánuði.

Jónas Þór Guðmundsson, fyrrverandi formaður kjararáðs.
Jónas Þór Guðmundsson, fyrrverandi formaður kjararáðs. mbl.is/Golli

Við eftirgrennslan mbl.is kemur, sem fyrr segir, í ljós að laun hans voru hækkuð með úrskurðinum 2011 þótt engin leið sé fyrir almenning að átta sig á því. Páll Matthíasson, núverandi forstjóri Landspítalans, tók við embætti árið 2013 og hefur því alltaf tekið laun samkvæmt hinum nýja úrskurði.

Ein yfirvinnueining jafngildir nú 9.572 krónum og hefur forstjórinn því þegið 316.000 krónum hærri mánaðarlaun en talið var. Þegar ákvörðun um hækkunina var tekin árið 2011 var ein yfirvinnueining hins vegar 6.473 krónur og launahækkunin því 214.000 krónur.

Hvorki náðist í Jónas Þór Guðmundsson, fyrrverandi formann kjararáðs, né Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans.

Minni hækkun nú því launin voru hærri

Í umfjöllun mbl.is um nýjan úrskurð kjararáðs, þann síðasta áður en ráðið var lagt niður, var greint frá því að launaflokki forstjórans hefði verið breytt og yfirvinnueiningum fjölgað í 135 á mánuði. Í fréttinni var miðað við að forstjórinn hefði fyrir ákvörðunina haft 100 yfirvinnueiningar og út frá því var launahækkunin reiknuð.

Var því greint frá að afturvirk hækkun forstjórans, til hálfs árs, næmi 3,5 milljónum króna. Nú hefur hins vegar komið á daginn að laun hans voru fyrir hærri en ætla mátti af upplýsingum kjararáðs. Af því leiðir að launahækkun forstjórans nú um mánaðamót var minni en greint var frá í fréttum mbl.is. Ný laun forstjórans eru 2.586.913 krónur, þau sömu og greint var frá.

Með öðrum orðum fékk forstjórinn ekki 3,5 milljóna króna eingreiðslu heldur hafði hann þegar þegið þann pening í hefðbundin laun, og gott betur. Á þeim rúmu átta árum sem liðin eru frá því laun forstjórans voru hækkuð með bréfi má ætla að hækkunin, sem ekki var auglýst, hafi skilað forstjóra spítalans í kringum 18 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert