4.700 hektara jörð seld með hóteli

Hótel Katla er þriggja stjörnu heilsárshótel með 103 herbergi ásamt …
Hótel Katla er þriggja stjörnu heilsárshótel með 103 herbergi ásamt veitingastað sem tekur allt að 200 manns í sæti. Ljósmynd/Aðsend

Með kaupum á Hótel Kötlu er um 4.700 hektara jörð komin í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta. Jörðin nær yfir hluta Mýrdalssands.

Eignarhaldið er í gegnum 75% eignarhlut bandarískra fjárfestingafélaga í Keahótelum.

Hótel Katla er á jörðinni Höfðabrekku. Með henni fylgja veiðiréttindi og flugvöllur. Rúmlega 100 herbergi eru á hótelinu. Það verður eitt af ellefu hótelum Keahótela. Á Höfðabrekku er nú lítil þyrping húsa. Búskap hafði verið hætt á bænum.

Munu flytja af jörðinni

Jóhannes Kristjánsson átti Hótel Kötlu ásamt eiginkonu og börnum. Hann segir þau selja hótelið með öllu sem fylgir jörðinni. Fjölskyldan muni flytja af jörðinni eftir söluna.

Fyrir á Svisslendingurinn Rudolf Walter Lamprecht jarðir, hús og veiðiréttindi í Mýrdalshreppi. Með kaupunum á Hótel Kötlu fá nýir eigendur aðgang að Kerlingardalsá og Vatnsá í gegnum félag þar sem Lamprecht er í meirihluta. Þá eiga bændur hlut í veiðifélaginu.

Erlendir aðilar hafa jafnframt sýnt jörðinni Hjörleifshöfða áhuga.

Sig­urður Sig­urðsson, lög­gilt­ur fast­eigna­sali hjá Lög­mönn­um Suður­landi, seg­ir verðhug­mynd­ir um Hjör­leifs­höfða hafa breyst. Ásett verð sé nú 700 milljónir. Vegna misskilnings birtist lægra tala í fyrri útgáfu þessarar fréttar og í Morgunblaðinu í dag.

Mýrdalshreppur kynnti í júní breytingu á aðalskipulagi. Þar var áætlað að um 1,4 milljónir ferðamanna hefðu ferðast um Mýrdalshrepp í fyrra. Þá áætli Vegagerðin að 888 þús. bílar hafi farið um Vík í fyrra, þrefalt fleiri en 2012.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert