Bjarnarleitinni lokið að sinni

Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður á vettvangi í gærkvöldi. Leit að …
Ólafur Hjörtur Ólafsson lögreglumaður á vettvangi í gærkvöldi. Leit að birninum er nú lokið. mbl.is/Sigurður Bogi

Leit að hvítabirninum á Melrakkasléttu lauk um klukkan 16:30 í dag, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Ekkert hefur sést til hvítabjarnar á svæðinu og leitinni er lokið að sinni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar ásamt lögreglu hefur flogið yfir svæðið frá þeim punkti þar sem talið var að sést hafi til hvítabjarnarins.

Í tilkynningu lögreglu segir að leitað hafi verið vel yfir svæðið, austur og vestur yfir Melrakkasléttuna, inn í land og meðfram ströndinni.

Í samtali við mbl.is sagði fulltrúi lögreglunnar á Norðurlandi eystra að ekki sé hægt að fullyrða um að lögreglan og Landhelgisgæslan hafi leitað af sér allan grun. „En það er búið að leita eins vel og hægt er, þar til annað kemur í ljós.“

Engar frekari öryggisráðstafanir verða gerðar að sinni vegna málsins en lögregla áréttar að ef fólk verði vart við dýrið skuli hafa samband við Neyðarlínuna í síma 112.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert