Fyrir barði tyrkneskra netníðinga

Eva Hauksdóttir hefur orðið fyrir ósvífnum árásum á samfélagsmiðlum.
Eva Hauksdóttir hefur orðið fyrir ósvífnum árásum á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Brian Sweeny

„Ég er ekkert að fara að láta kúga mig,“ segir Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa látið lífið í Afrin-héraði í Sýrlandi fyrr á árinu, í samtali við mbl.is. Eva hefur þurft að sæta morðhótunum og öðrum árásum tyrkneskra netníðinga að undanförnu.

Skjáskot/Facebook

Eva hefur gagnrýnt tyrknesk stjórnvöld mikið á samfélagsmiðlum og hefur í kjölfarið fengið hörð viðbrögð frá Tyrkjum. „Ég er búin að fá mikið af athugasemdum á Facebook, ég hef fengið heilmikið á Twitter og alveg helling í Messenger-hólfið á Facebook,“ segir hún.

Þá hafa skilaboð til hennar verið allt frá myndum af tyrkneska fánanum og illa breyttar myndir af íslenska fánanum með hundaskít yfir í morðhótanir, þar sem sagt er að viðkomandi viti hvar hún eigi heima og að hún ætti að fara varlega þar sem Tyrkir séu víða.

Eva segist ekki láta undan slíkri framkomu í sinn garð, en hún hefur oft svarað þessum skilaboðum. „Ég sé ekki ástæðu til annars en að svara fullum hálsi.“

„Ég er ekkert að fara að láta kúga mig. Þetta [gagnrýni Evu] beinist ekki gegn Tyrkjum sem þjóð, þetta beinist gegn þessari þróun sem er að eiga sér stað að búið er að stofna einveldi í Tyrklandi,“ bætir hún við.

Hugsanlega vegna tákna

Spurð hvernig tyrkneskir aðilar úti í heimi hafi haft upp á henni svarar Eva að samfélagsmiðlarnir hafi haft mikið að segja.

„Ég birti myndir af fána brenna og því hefur örugglega verið deilt. Menn sjá þarna verið að brenna tyrkneskan fána og verða bara brjálaðir.“

Hún telur menningarmun einnig mikilvægan þátt. „Ég ber ekki svo mikla virðingu fyrir táknum eins og sumir gera kannski á sumum stöðum í heiminum þar sem fólk lítur á þessi þjóðartákn, trúartákn og svo framvegis, alvarlegri augum en við gerum.“

Engu nær í leitinni að Hauki

Eva hefur leitað sonar síns frá því að tyrkneskir fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði látist í árás Tyrkja í Afrin-héraði í Sýrlandi. Hún segist ekki hafa fengið neinar nýjar upplýsingar um afdrif Hauks og gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki aðhafst af meiri krafti í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert