Kviknaði tvisvar í glæðum í nótt

Starfsemi hófst í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík í …
Starfsemi hófst í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík í vor. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Um einn og hálfan klukkutíma tók að slökkva eld sem kom upp í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík um klukkan hálfátta gærkvöld. Um allsherjarútkall var að ræða og fengu slökkviliðsmenn liðsauka frá slökkviliði Þingeyjarsveitar. 28 slökkviliðsmenn voru á vettvangi þegar mest var. Engin slys urðu á fólki.

„Við náðum mjög fljótt tökum á þessu þegar búið var að slá út rafmagnið á byggingunni,“ segir Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri á Húsavík, í samtali við mbl.is. Eldurinn kom upp í öðru ofnhúsi verksmiðjunnar og var svæðið rýmt áður en slökkvistarf hófst.

Í tilkynningu frá PCC Bakka segir að eldurinn hafi læst sig í rafskautapalli sem er á efstu hæð í ofnhúsinu. Pallurinn er úr timbri sem skapar einangrun fyrir starfsmenn frá háspennu þegar verið er að bæta við rafskautum.

Slökkviliðið á Húsavík sinnti eftirliti við kísilverið í nótt og þurfti í tvígang að slökkva elda í glæðum. „Það er eitthvað sem við bjuggumst við og þess vegna var svæðið vaktað,“ segir Grímur.

Þetta er fyrsta atvikið sem slökkviliðið sinnir í kísilveri PCC á Bakka frá því að það tók til starfa fyrr í vor. 

Á Facebook síðu PCC Bakka er greint frá því að í gærmorgun fór rafmagn af öllu svæði kísilversins og í framhaldinu opnuðust neyðarskorsteinar sem voru opnir í um 45 mínútur þegar rafmagn kom aftur á. Grímur segir að ekki sé hægt að segja til um orsakasamhengi þar á milli að svo stöddu. Slökkviliðið afhenti vettvanginn rannsóknarlögreglu í gærkvöld sem skorðaði af hluta kísilversins og verður rannsókn áfram haldið í dag.

Í tilkynningu frá PCC Bakka segir að frumniðurstöður benda til þess að eldurinn hafi byrjað í einum af ofngeymum sem mata hráefni inn í ofninn og breiðst þaðan yfir í rafskautapallinn. Skemmdir eru ekki taldar verulegar og mun fyrirtækið einbeita sér að því að gangsetja hinn ofn verksmiðjunnar, Boga, og hefja framleiðslu aftur sem fyrst. Á meðan verður allt kapp lagt á að gera ofninn Birtu, rekstrarhæfan á meðan.


28 slökkviliðsmenn sinntu slökkvistarfi þegar eldur kom upp í kísilveri …
28 slökkviliðsmenn sinntu slökkvistarfi þegar eldur kom upp í kísilveri PCC á Bakka á Húsavík í gærkvöld. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert