Nýja merkið sýnir manneskju í virkni

Nýja merkið hefur á sér annan brag en það gamla …
Nýja merkið hefur á sér annan brag en það gamla og sýnir manneskju á hreyfingu. Ljósmynd/Aðalsteinn Sigurðsson

Þrjú bílastæði fyrir fatlað fólk við Breiðholtslaug eru nú auðkennd með nýju bílastæðamerki, sem er frábrugðið þeim sem áður hafa auðkennt slík stæði. Greint er frá þessu í frétt á vef Öryrkjabandalags Íslands í dag.

Reykjavíkurborg stendur fyrir merkingunum, samkvæmt upplýsingum sem Öryrkjabandalagið hefur frá sundlauginni, en nýja bílamerkið var kynnt á málþingi ÖBÍ, sem haldið var í vor. Þar lýsti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri yfir stuðningi við það að merkið yrði innleitt í borginni.

Þetta nýja merki fyrir bílastæði fatlaðra hefur á sér annan brag en það sem notað hefur verið til að auðkenna slík stæði undanfarna áratugi. Nýja merkið sýnir manneskju í virkni, manneskju á hreyfingu sem fer sjálf sinna ferða.

Á vef ÖBÍ segir að nýja aðgengismerkið hafi þegar verið innleitt i nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal New York og Connecticut, auk þess sem merkið hafi verið tekið upp í einstökum borgum í Evrópu, Kanada og víðar.

Verði merkið innleitt hérlendis, verður Ísland fyrsta þjóðríkið til að taka það upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert