Chris ruglar spár í ríminu

Veðurstofa Íslands

Strekkingsvindur er á heiðum norðvestan til og allhvasst á norðvanverðu Snæfellsnesi fram yfir hádegi. Um að gera fyrir ferðalanga að kanna aðstæður á vegum áður en lagt er í hann og á það ekki síst við um léttari farartæki og tengivagna eins og til dæmis húsbíla og hjólhýsi. Þetta kemur fram í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

„Sem fyrr er harla fátt spennandi í veðurkortunum fyrir næstu daga, sé horft með augum íbúa á Suður- og Vesturlandi. Staðan öllu betri í öðrum landshlutum, en þó mun rigna víða um land í dag. Íbúar á Austurlandi sleppa sennilega alfarið við úrkomuna og eru líkur á því að hiti nái 20 stigum þar. 

Morgundagurinn verður síðan heilt yfir ágætur, hæg vestanátt með skýjaþykkni um landið vestanvert, en sennilega hangir hann þó þurr. Léttskýjað fyrir austan og áfram hlýtt. Það er svo aftur bleyta í kortunum sunnan- og vestanlands á föstudag, en á laugardaginn virðist sem rignt geti duglega á flesta ef ekki alla landsmenn.

Hvað gerist eftir laugardaginn er svo dálítið óráðið. Fellibylurinn Chris, sem staddur er nú vestur af Nýju-Karólínu, ræður þar nokkru um og ruglar spár í ríminu, eins og fellibyljir vilja oft gera. Spárnar eru nú að gefa til kynna að leifar fellibylsins muni koma upp að strönd Íslands á sunnudaginn, en misjafnt er hvort að strandhöggið verði við suður- eða austurströndina. Chris mun þó sennilega ekki gera mikið af sér hér á landi, ef hann kemur, fyrst og fremst yrði um að ræða hraustlegan skammt af rigningu með strekkingsvindi. Og kannski kemur Chris bara alls ekki. Það myndi alltaf teljast til góðra frétta, ekki síst nú á þessum síðustu og verstu tímum, sé aftur horft á hlutina með augum íbúa sunnan- og vestanlands. Eina sem við getum gert er að bíða og sjá hvað gerist,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Suðlæg átt, víða 5-13 m/s, en 13-18 á norðanverðu Snæfellsnesi fram yfir hádegi. Rigning eða súld með köflum, en þurrt að mestu norðaustan- og austanlands. Minnkandi vindur og úrkoma í kvöld og nótt. Fremur hæg vestlæg átt á morgun og skýjað en úrkomulítið um landið vestanvert, en bjartviðri á köflum austanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Suðvestan 5-10 m/s. Skýjað og yfirleitt þurrt á vestanverðu landinu en víða bjartviðri austanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi. 

Á föstudag:
Suðaustan 5-13 m/s og rigning eða súld, en þurrt norðaustanlands. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast norðaustanlands. 

Á laugardag:
Suðvestlæg eða breytileg átt og víða vætusamt, en dregur úr úrkomu með deginum, einkum sunnan- og austanlands. 

Á sunnudag og mánudag:
Útlit fyrir norðlæga átt með dálítilli vætu um norðanvert landið en rofar víða til sunnan- og vestanlands. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast á Suðurlandi. 

Á þriðjudag:
Hæg suðlæg átt. Skýjað með köflum og þurrt sunnan- og vestanlands, en bjartviðri fyrir norðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert