Eldurinn breiddi úr sér á örfáum mínútum

Sæborg NS, báturinn sem sökk á Héraðsflóa í gær.
Sæborg NS, báturinn sem sökk á Héraðsflóa í gær. Ljósmynd/Aðsend

Jón Svansson, eigandi bátsins Sæborgar NS sem sökk í gær á Héraðsflóa, segist telja að hann hafi gert allt rétt í þeim aðstæðum sem upp komu. Eldur kviknaði í vélarrúminu sem myndaði eitraðan reykjarmökk og breiddi hann úr sér um allan bátinn á nokkrum mínútum. Því var tíminn skammur fyrir Jón, en hann náði að forða sér frá borði og yfir í björgunarbát þaðan sem Landhelgisgæslan sótti hann á þyrlu og varð honum því ekki meint af.

Jón, sem verður sextugur á árinu og er með áratuga reynslu af sjómennsku, sagðist í samtali við mbl.is eiga tvo báta sem hann gerir út, með þeim sem sökk. Sæborgu NS hafði Jón aðallega notað í hákarlaveiði og var einmitt í þeim erindagjörðum þegar atvikið átti sér stað í gær. Þegar blaðamaður náði tali af Jóni var hann á leið í slökunarferð út í sveit. 

Jón Svansson. Myndin er tekin árið 2008 í Taílandi.
Jón Svansson. Myndin er tekin árið 2008 í Taílandi. Ljósmynd/Aðsend

Fann lykt sem gaf honum vísbendingu

„Ég var á leiðinni að taka upp hákarlalínur. Ég var búinn að sigla þarna í tvo og hálfan tíma og var kominn einhverjar tíu mílur norð-austur af Bjarnarey. Þá fór ég að finna lykt sem mér þótti vera vísbending um að olíuúði væri kominn í vélarrúmið. Vélin fer þá að drekka það í gegn um sig. Þegar ég kem út úr stýrishúsi þá er byrjað að rjúka út úr loftinntæki stjórnborðsmegin á bátnum,“ segir Jón, en hann segist ekki hafa orðið var við bilun í bátnum áður en atvikið átti sér stað.

Jón reyndi að skrúfa frá kolsýruslökkvibúnaði bátsins þegar hann sá reykinn en honum þótti það duga skammt. Á örfáum mínútum fylltist stýrishús bátsins af eitruðum reyk svo tíminn var naumur fyrir Jón. „Það var ekkert annað að gera, með eld frammi í bátnum, en að koma björgunarbátnum í sjóinn strax. Hlutirnir breyttust þegar ég sá hann blásast upp. Þá sá ég útgöngu út úr þessum aðstæðum. Það var ekki eftir neinu að bíða.“

Jón segir að hræðsla hafi ekki gert vart við sig …
Jón segir að hræðsla hafi ekki gert vart við sig hjá honum þegar atvikið átti sér stað. Ljósmynd/Aðsend

Logaði nánast endanna á milli

Jón komst sjálfur út í björgunarbátinn og var því kominn frá brennandi bátnum þegar hann sendi út neyðarboð til landhelgisgæslunnar, en happ var að þyrla Landhelgisgæslunnar var skammt frá við ísbjarnarleit á Melrakkasléttu og send til hans þegar í stað. Hann segir ekki nema tíu mínútur hafa liðið frá því hann komst úr bátnum þar til hann var farinn að loga nánast endanna á milli. „Þetta gerðist alveg ofboðslega hratt.“

Aðspurður hvað hafi flogið gegn um huga hans á meðan á atvikinu stóð segir Jón að engin hræðsla hafi gert vart við sig hjá honum á þessari stundu. „Ég er svo lausnamiðaður að við svona aðstæður þá verð ég ekki hræddur. Það er fyrsta atriðið, þú mátt ekki verða hræddur, því þá gerir þú vitleysur. Ég er búinn að lenda í ýmsu í gegn um ævina og þetta hefur virkað vel. [...] Það sem flaug í gegn um hugann hjá mér var að koma björgunarbátnum strax í sjóinn og taka hann fram fyrir allar aðgerðir,“ segir Jón, en vegna þess skamma tíma sem hann hafði tók hann þá ákvörðun að sækja ekki flotgalla eða annan búnað þar sem stýrishúsið hafði þá þegar fyllst af reyk.  

„Ég hefði getað tekið upp á því að stökkva inn í reykinn til þess að ná mér í flotgalla í einhverjum vitleysisgangi. Þá hefði ég kannski verið búinn að anda reyknum að mér, reykurinn í þessu er eins eitraður og hann getur verið,“ segir Jón, en hann hefur farið á skyldubundin öryggisnámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna sem hann telur hafa komið að góðum notum.

Jón gerir hér að hákarli sem hann veiddi á bát …
Jón gerir hér að hákarli sem hann veiddi á bát sínum sem sökk í gær. Ljósmynd/Aðsend

Aðstandendur fegnir

Sæborg NS maraði í hálfu kafi þegar Landhelgisgæslan sótti Jón með þyrlu, um hálftíma eftir að hann náði að senda út neyðarboðið, en báturinn sökk endanlega snemma í gærkvöldi. Jón er hins vegar vel tryggður og býst ekki við öðru en að fá tjónið bætt.

Jón segir allt hafa gengið vel fyrir sig eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar kom. Hann taldi sig ekki þurfa á læknisaðstoð að halda, enda hafi hann ekki andað reyknum að sér. Jón segir þó að hans nánustu séu fegnir því að ekki hafi farið verr. „Jú, þetta var svolítið krítískt ástand á tímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert