Forgangsmál að breyta úthlutun

Konukot er rekið í samstarfi við Rauða krossinn.
Konukot er rekið í samstarfi við Rauða krossinn. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Drög að nýjum reglum um úthlutun á félagslegu húsnæði voru lögð fyrir velferðarráð í maí. Umræða um reglurnar verður það fyrsta málið á dagskrá velferðarráðs þegar ráðið kemur saman í ágúst að loknu sumarleyfi. Þetta segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkur.

Umboðsmaður Alþing­is hef­ur síðustu misseri unnið að frum­kvæðis­at­hug­un vegna hús­næðis­vanda þeirra ein­stak­linga sem falla und­ir hug­takið „utang­arðsfólk“ í 16 stærstu sveitarfélögum landsins og kom meðal annars í ljós að utangarðsfólki í Reykjavík hefur fjölgað um 95% frá árinu 2012. Þá skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda.

Regína Ásvaldsdóttir
Regína Ásvaldsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Regína segir að þegar sé hafin vinna við að koma til móts við mörg sjónarmiðanna sem koma fram í skýrslunni. Borgin rekur fjögur heimili þar sem fyrrum utangarðfólki er tryggð varanleg búseta en þar búa milli 20 og 30 manns. Því til viðbótar eru neyðarathvörfin Konukot, fyrir konur, og gistiskýli við Lindargötu, fyrir karlmenn, þangað sem útigangsmenn geta leitað í húsnæði og mat.

Skýrari ákvæði varðandi viðmið um úthlutun íbúða á heimilunum fjórum eru nauðsynleg, að mati Regínu. 

Í skýrslu umboðsmanns er tíunduð saga manns sem leitaði til umboðsmanns árið 2014 eftir að hafa verið á biðlista eftir húsnæði í fimm ár. Allan þann tíma hafði hann búið á götunni eða dvalið í gistiskýlinu sem hugsað er sem neyðarúrræði. Aðspurð segist Regína ekki þekkja til málsins enda hafi hún ekki verið komin til starfa á þeim tíma. Þá vonast hún til að þessi langi biðtími sé einsdæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert