Ók inn á lokun vegna malbikunar

Maðurinn ók inn á svæði sem hafði verið lokað vegna …
Maðurinn ók inn á svæði sem hafði verið lokað vegna malbikunar á Selfossi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ökumaður jepplings ók í síðustu viku gegn lokunum sem höfðu verið settar upp vegna malbikunar á Austurvegi austast á Selfossi. Virti hann að engu bendingar starfsmanna á vinnusvæðinu sem áttu sér fótum fjör að launa vegna akstursins. Þetta kemur fram í samantekt lögreglunnar á Suðurlandi á verkefnum síðustu viku.

Var maðurinn yfirheyrður á lögreglustöð vegna brotanna „sem hann kannaðist við,“ eins og orðað er á heimasíðu lögreglunnar. Er málið litið alvarlegum augum og hafa verið teknar skýrslur af vitnum vegna þess. Segir í tilkynningu lögreglunnar að maðurinn megi líklega sæta ákæru vegna málsins.

Í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi voru annars 39 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í síðustu viku. Sá sem ók hraðast var tekinn á 157 km/klst. hraða á Suðurlandsvegi, til móts við Varmadal, að kvöldi 6. júlí.

Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um að aka undir áhrifum, þar af tveir fyrir að hafa einnig verið undir áhrifum fíkniefna. Hefur annar þeirra komist ítrekað í kast við lögin vegna sams konar brota og var ökutæki hans haldlagt með það í huga að það verði gert upptækt vegna fjölda brota hans.

Hinn ökumaðurinn sem eins var ástatt með ók bifreið sinni út af vegi við Úlfljótsvatn og slasaðist við það sem og farþegi í bifreið hans. Bifreiðinni hafði greinilega verið ekið á töluverðum hraða út af veginum og voru bæði ökumaður og farþegi fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík.

Skráningarnúmer voru tekin af fjórum ökutækjum vegna þess að þau voru ótryggð í umferðinni.

Ökumaður vinnuvélar við vinnu á Höfn var stöðvaður og reyndist réttindalaus.  Hann á von á sekt fyrir brot sitt.

mbl.is