Rangfeðraður sonur vann erfðamál

Mynd/mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands felldi í dag úr gildi erfðaskrá látins manns sem arfleiddi ættingja sína að eignum sínum, en maðurinn stóð í þeirri trú við gerð erfðaskrárinnar að hann ætti enga lögerfingja. Í ljós kom, eftir að maðurinn lést, að hann átti einkason sem höfðaði mál gegn ættingjum föður síns og fór fram á að hann einn skyldi erfa föður sinn að öllum eignum. Þar á meðal var fasteign sem skráð var á föður hans. 

Sonurinn fæddist árið 1951 og þá hafði móðir hans nýhafið sambúð með manni. Þau gengu síðar í hjónaband og var þá sá maður skráður faðir sonar konunnar í samræmi við þágildandi lög um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Maðurinn greindi frá því fyrir dómi að hann hafi strax á barnsaldri fengið vitneskju um að maðurinn væri ekki blóðfaðir hans, heldur annar maður sem hafði kynnst móður hans ári áður en hann fæddist.  

Árið 2016 fór sonurinn í mál til vefengingar á því að maður móður hans væri blóðfaðir sinn. Lauk því máli með dómsátt um að sú væri raunin, maðurinn væri ekki faðir hans. Var það gert í samræmi við niðurstöðu mannerfðafræðilegrar rannsóknar um að nær 100% líkur væru á því að fyrrum vinur móður hans væri faðirinn. Árið 2017 féll dómssátt í Héraðsdómi Reykjaness þess efnis að sá maður væri réttur lífræðilegur faðir sonarins. 

Í forsendum dómsins er rakið að arfleifandinn hafi staðið í alrangri meiningu um stöðu sína. Í þeim erfðaskrám sem lágu fyrir í málinu fullyrti arfleifandinn að hann ætti enga skylduerfingja og því hafi hann ákveðið að ráðstafa eignum sínum til frændfólks og vandalausra.

„Val hans á erfingjum hafi verið reist á misskilningi um erfingja. Miðað yrði við að hann hefði ekki hagað arfleiðslunni með þeim hætti sem hann gerði hefði hann búið yfir vitneskju um að hann ætti einkason, enda ráðstöfunin honum beinlínis óheimil skv. 35. gr. erfðalaga,“ að því er segir í dóminum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert