Samkeppniseftirlitið skoði Booking.com

Booking.com er stærsta bókunarsíða heims, og hugsanlega með yfir 50% …
Booking.com er stærsta bókunarsíða heims, og hugsanlega með yfir 50% markaðshlutdeild á heimsvísu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamálastofa hefur sent Samkeppniseftirlitinu ábendingu um starfsemi bókunarsíðunnar Booking.com. Stofan telur álitamál hvort skilmálar fyrirtækisins standist samkeppnislög þar sem þeir feli mögulega í sér íþyngjandi skilyrði fyrir viðskiptavini og hindri þar með eðlilega samkeppni. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa gerir einkum athugasemd við það sem kallast bestukjarameðferð en þar þurfa ferðaþjónustufyrirtæki, til dæmis hótel og aðrir giststaðir, sem eru í viðskiptum við Booking.com að skuldbinda sig til að bjóða aldrei betra verð en það þau bjóða á heimasíðu Booking.

Í tilkynningu Ferðamálastofu segir að samkeppnisyfirvöld víða í Evrópu hafi gert athugasemd við umrædda bestukjarameðferð og hafi skilmálunum verið breytt sums staðar.

Hin hollenska Booking.com er stærsta bókunarsíða heims og um 1,2 milljónir gistinótta eru bókaðar á heimasíðunni á degi hverjum. Þóknun fyrirtækisins er, að sögn Ferðamálastofu, að lágmarki 15% af heildarkostnaði gistingar og má því áætla að söluþóknun fyrirtækisins vegna gistingar hérlendis nemi fimm milljörðum króna, hið minnsta.

Skjáskot/Booking.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert