Skiptar skoðanir um breytingar á Airwaves

Eigendur Airwaves segja að nauðsynlegt hafi verið að endurskipuleggja hátíðina. …
Eigendur Airwaves segja að nauðsynlegt hafi verið að endurskipuleggja hátíðina. Skiptar skoðanir eru um þær breytingar sem hafa verið gerðar meðal veitingamanna. mbl.is/Eggert

Nokkrar breytingar hafa átt sér stað undanfarið í tengslum við Airwaves-tónlistarhátíðina. Meðal þess sem ljóst er að muni taka breytingum á Airwaves í ár verður utandagskrá hátíðarinnar, (e. off-venue). Í fyrra voru um 50 staðir sem héldu tónleika í tengslum við hátíðina utan dagskrár og höfðu þeir þá aldrei verið fleiri. Nýir eigendur hátíðarinnar segjast vilja snúa þeirri miklu stækkun við, fækka utandagskráratriðum og auka fremur við formlega dagskrá.

Þáttökustöðum utan dagskrár frá hátíðinni í fyrra var á dögunum sent uppkast að samningi sem hljóðar upp á mun hærri fjárhæð fyrir þáttöku í utandagskránni auk nokkurra takmarkana, vilji þeir staðir taka þátt á nýjan leik. Skiptar skoðanir eru uppi um ágæti breytinganna meðal veitingamanna, en framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, Ísleifur Þórhallsson, segir nauðsynlegt að breyta fyrirkomulaginu svo hátíðin lifi. Klaus Ortlieb, veitingamaður og hóteleigandi á Hlemmi Square er ósáttur við fyrirkomulagið og segir forsvarsmenn hátíðarinnar beinlínis vera að framkvæma rán.

Off-venue ein stærsta ástæðan fyrir tapinu

Sena live, nýr eigandi hátíðarinnar, þreytir nú frumraun í rekstri hátíðarinnar en þeir tóku yfir reksturinn í febrúar síðastliðnum. Airwaves hefur undanfarin ár glímt við fjárhagsvanda, en tap af hátíðarinnar hefur nú numið tæplega 60 milljónum króna tvö ár í röð. Í kjölfar þessa hafa nýir eigendur nú tekið skipulag hátíðarinnar til gagngerrar endurskoðunar til þess að ná tökum á rekstrinum.

„Það var eitt sem blasti við okkur þegar við byrjuðum að skoða hvað hefði farið úrskeiðis. Ein stærsta einstaka ástæðan fyrir því að miðasalan var á niðurleið og tekjurnar sömuleiðis, var að það var ekki nógu mikil stjórn á off venue stöðum. Því var bara leyft að springa út,“ segir Ísleifur.

Hann segir stjórnendur hátíðarinnar vilja færa hana í nokkuð upprunalegt horf. „Það sem við erum að reyna að gera er að fara til baka, ná tökum á þessu upp á nýtt þannig að off-venue staður sé ekki að keppa við hátíðina sjálfa. [...] Það var einfaldlega búið að kenna fólki að það geti tekið hátíðina með trompi án þess að kaupa miða. Það augljóslega drepur miðasöluna og var að éta hátíðina lifandi.“

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Airwaves.
Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Airwaves. mbl.is/Eggert

Eigi ekki að vera samkeppni við hátíðina

Ísleifur segir að stjórnendur hátíðarinnar hafi þurft að búa til einfalda skilgreiningu fyrir utandagskráina.

„Off-venue er eitthvað sem bætir við hátíðina en keppir ekki við hana. Þetta eru öðruvísi staðir heldur en official staðirnir, á öðrum tíma með öðruvísi atriði. Þetta er ekkert voðalega flókið, við getum ekki leyft off-venue stöðum að vera í samkeppni við okkur. Við getum ekki leyft því að þrífast.“

Ísleifur segir jafnframt að stjórnendur hátíðarinnar hafi gefið öllum fyrrum tónleikahöldurum utan dagskrár kost á þátttöku í formi breytts samnings. Samkvæmt heimildum mbl.is er m.a. viðmiðunarverð fyrir þátttöku utan dagskrár fyrir alla hátíðina nú um hálf milljón króna í stað um 60 þúsund króna sem hafi verið uppsett verð áður. Ísleifur segir þó að samningurinn sé settur fram sem yfirlýsing um þær breytingar sem nauðsynlegar séu en stjórnendur vilji þó gjarnan heyra álit staðanna. Taka verði mið af því að kostnaðurinn sé samsettur af daggjöldum sem séu mishá eftir dögum. Þá séu sérstök gjöld fyrir staði sem ekki séu í rekstri með hagnaðarsjónarmið en vilji taka þátt, t.d. Hitt húsið og elliheimilið Grund.

Vörumerkið fái sneið af kökunni

Aðspurður hvort stjórnendur hátíðarinnar hafi fundið fyrir óánægju segir Ísleifur að viðtökur rekstraraðila við samningnum hafi vissulega verið misjafnar. „Ég verð að segja að flestir sýna þessu bara þó nokkurn eða fullan skilning.“ segir Ísleifur. Hann bætir því við að takmarkið hafi jafnframt verið að fækka stöðunum og nú sjái stjórnendur hátíðarinnar fram á að utandagskrárstaðir verði rúmlega 20 talsins, sem sé mun eðlilegra en þeir 50 staðir sem áður tóku þátt utan dagskrár.

„Vandamálið við rekstur Airwaves er það að vörumerkið er gríðarlega sterkt og það býr til fullt af viðskiptum fyrir fullt af aðilum, en hátíðin sjálf þurfti á endurskipulagningu að halda. Ég vil þó taka fram að í þessu felst engin gagnrýni á fyrri stjórnendur; þau voru að gera sitt besta við erfiðar aðstæður,“ segir Ísleifur. Hann bendir á að utandagskrárstaðir fái mikla kynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar og gestum sé beint á samstarfsstaði sem skapi verðmæti í formi viðskipta. Hann segir því eðlilegt að vörumerkið njóti, upp að vissu marki, góðs af því sem það stendur sjálft fyrir. „Við viljum koma með þá hugmynd að vörumerkið sem keyrir þetta allt áfram fái sneið af kökunni.“

Ísleifur segir jafnframt að gróði sé ekki eitt af takmörkum eigenda hátíðarinnar. „Okkar markmið í rekstri Airwaves, núna og til lengri tíma, er að reka það á núlli, segir hann en bætir þó við að fyrir Senu live hafi það margvíslegar jákvæðar hliðarverkanir að vera í forsvari fyrir Airwaves. Þannig skapist m.a. betri tengingar við erlenda umboðsmenn.

Forsvarsmenn veitingahúsanna Dillon og Bryggjunnar Brugghúss sögðust í samtali við mbl.is skilja þessa afstöðu eigenda hátíðarinnar og munu veitingahúsin halda ótrauð áfram samstarfi við Iceland Airwaves þrátt fyrir breytt rekstrarfyrirkomulag. 

„Algjörlega fáránlegt“

Klaus Ortlieb, veitingamaður og hóteleigandi á Hlemmi Square, er ekki sammála Ísleifi og segir eigendur hátíðarinnar beinlínis framkvæma rán með því að hækka upphæðina úr 50 þúsund krónum í 500 þúsund krónur. Hlemmur Square hélt off-venue tónleika í fyrra en mun ekki taka þátt í ár. 

„Mér finnst þetta fáránlegt, algjörlega fáránlegt. Auk þess skipa þeir fyrir um að aðeins verði seldur Víking bjór á barnum og að þeir muni taka prósentu af veltu staðarins á meðan á viðburðinum stendur, 10%. Þetta er algjörlega galið. Þetta er ekki sanngjarnt gagnvart verslunarfólki og fyrst og fremst er þetta ekki sanngjarnt gagnvart tónlistarfólki, því ég held að það komi ekki til með að vera nóg af off-venue stöðum í boði," segir Klaus.

Klaus Ortlieb, veitingamaður og hóteleigandi á Hlemmi Square.
Klaus Ortlieb, veitingamaður og hóteleigandi á Hlemmi Square. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir jafnframt óforsvaranlegt að skipað sé fyrir um að aðeins verði seldur Víking bjór á viðburðunum, þar sem margir staðir séu samningsbundnir Ölgerðinni. Þá muni kostnaðurinn verða enn meiri þegar upp er staðið. „Það sem var mest móðgandi var að þeir skyldu biðja mig um að semja. Afhverju ætti ég að vilja semja við þá? Á hvaða grundvelli? Á sama óheiðarlega grundvelli og þeir lögðu fram tilboðið? Ef þeir hefðu hækkað verðið um helming, þá hefði ég íhugað að semja,“ segir Klaus. 

Þegar hafa forsvarsmenn Kaffibarsins gefið það út að þeir muni ekki taka þátt í Airwaves í fyrsta skipti ár, en Kaffibarinn hefur tekið þátt frá upphafi. 

Uppfært kl. 13:20: Í tilkynningu til mbl.is segir Ísleifur Þórhallsson að skýrt hafi verið tekið fram í uppkasti samningsins að aðeins hafi verið um hugmyndir að ræða. Tilgangurinn hafi verið að hefja samtal og að Iceland Airwaves hafi óskað sérstaklega eftir viðbrögðum og athugasemdum. Þá segir hann rangt sem fram kemur hjá Klaus Ortlieb að stöðunum hafi verið skipað að selja ákveðnar tegundir af bjór. Það hafi verið umsemjanlegt ákvæði og unnt að fella það út úr samningi. Þeir hafi að eigin sögn reynt að fá staðina til þess að setja drykkinn sem styrkir Iceland Airwaves í forgrunn, en öðru hafi þeir sýnt skilning. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert