Slökkviliðið færist úr kjallara fjölbýlishúss

Ný slökkviliðsstöð við Norðurgarð 5 á Húsavík mun rísa á …
Ný slökkviliðsstöð við Norðurgarð 5 á Húsavík mun rísa á nýrri landfyllingu. Mynd/Aðsend

„Við vorum nú ekki alveg blautir á bak við eyrun þegar þetta gerðist,“ segir Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri Norðurþings, í samtali við blaðamann mbl.is. Unnið hefur verið að eflingu slökkviliðs Norðurþings að undanförnu, meðal annars vegna starfsemi kísilverksmiðjunnar á Bakka, en þar kviknaði eldur í fyrradag.

Grímur fagnar því að samþykkt var á dögunum að byggja nýja slökkvistöð, en Norðurþing hefur samþykkt verksamning upp á 247 milljónir króna til uppbyggingar nýrrar slökkvistöðvar. Stöðin mun bæta starfsumhverfi slökkviliðsins gríðarlega og hefur slökkviliðið beðið lengi eftir bættri aðstöðu að sögn Gríms.

„Við höfum ekki verið í neinni ákjósanlegri aðstöðu og erum það ekki enn. Við erum í mjög þröngum húsakosti, sem hefur staðið starfinu fyrir þrifum. Þetta er mikil bót af þessu, alveg klárlega,“ segir Grímur.

Samkvæmt Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra Norðurþings, hefur staðið til í lengri tíma að tryggja slökkviliðinu betri aðstöðu. „Þetta er vissulega stór fjárfesting. Það er bara svoleiðis þegar slökkvistöðin er búin að vera, má eiginlega segja, í kjallara á fjölbýlishúsi í ansi langan tíma,“ segir hann og hlær.

Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri Norðurþings.
Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri Norðurþings. Ljósmynd/Norðurþing

Kísilver krefst innviða

Samkvæmt slökkviliðsstjóranum er nýja slökkvistöðin meðal annars til komin vegna starfsemi kísilverksmiðju PCC á Bakka. „Við sinnum viðbragðsþjónustu fyrir það svæði, það hefur í takt við það verið unnið að því að efla starfsemi liðsins. Með þessari húsbyggingu, hún verður staðsett á nýrri norðurfyllingu sem gerir viðbragðstíma þarna út eftir mun styttri en við getum boðið í dag,“ segir hann.

„Það er alveg klárt að eiga við verkefni í þessu stóra mannvirki er meira en að segja það fyrir lítið aðstöðulaust lið. Þetta rennir enn frekar stoðum undir það að þörf hefur verið á því að efla þennan málaflokk, eins og gert hefur verið sem betur fer,“ segir Grímur og vísar til nýrrar stöðvar og að nýr bíll hefur verið keyptur.

Fjölgað hefur slökkviliðsmönnum í fullu starfi og eru þeir nú þrír, en áður var aðeins einn í fullu starfi. Þá hefur einnig verið unnið markvisst að því að efla þekkingu slökkviliðsmanna og hafa verið haldnar æfingar með viðbragðshópi PCC að sögn Gríms. „Þetta er umtalsvert mikil breyting fyrir okkur.“

„Þetta er dýr málaflokkur í rekstri og mjög mikið atriði fyrir okkur að hlutirnir séu í lagi. Sérstaklega þegar svona ný starfsemi er annars vegar, sem er að einhverju leyti framandi og fylgir ákveðin áhætta,“ segir Kristján.

Engin tilboð bárust

Byggðaráð Norðurþings hefur samþykkt verksamning við Trésmiðjuna Rein ehf. til uppbyggingar nýrrar slökkvistöðvar við Norðurgarð 5 á Húsavík. Óskað var eftir tilboðum í verkið 16. janúar og lauk tilboðsfresti 7. febrúar.

Engin tilboð bárust áður en umræddur frestur rann út og samkvæmt fundargerð byggðaráðs ákvað Norðurþing að semja sérstaklega um verkið „í ljósi brýnnar þarfar sveitarfélagsins að koma upp umræddri aðstöðu“.

Samningsfjárhæð er um 247 milljónir króna og er stefnt að því að hefja byggingu slökkvistöðvarinnar mánaðamótin ágúst-september, áætluð verklok eru í ágúst 2019. Þá mun um 20% húsnæðisins hýsa hafnir Norðurþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert