Ekki tekinn af lífi fyrr en í september

Nýi aftökuklefinn hefur enn ekki verið notaður.
Nýi aftökuklefinn hefur enn ekki verið notaður. Ljósmynd/Fangelsismálastofnun Nevada

Aftöku morðingjans Scott Dozier hefur verið frestað í 60 daga hið minnsta, eftir að dómari tók kröfu lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins Al­vo­gen til greina. Alvogen og fangelsisyfirvöld í Nevada munu mæta aftur í dómsal 10. september þar sem málið verður tekið fyrir.

Eins og áður hefur verið greint frá á mbl.is höfðaði lyfjafyrirtækið Alvogen mál gegn Nevada-ríki í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir að lyf fyrirtækisins væri notað við aftökuna, en í málflutningi Alvogen kom fram að yfirvöld í Nevada hefðu útvegað sér lyfið með ólögmætum hætti án þess að tilgreina til hvers ætti að nota það. Líkt og mörg önnur lyfjafyrirtæki heimilar Alvogen ekki að lyf þess séu notuð til aftöku.

Dozier hefur tvívegis verið dæmdur fyrir morð, síðast árið 2007 og þá til dauða. Hann hefur reynt sjálfsvíg og hefur ítrekað löngun sína til að deyja, í símaviðtali við Las Vegas Review-Journal. „Líf í fangelsi er ekkert líf.“

Scott Dozier.
Scott Dozier. Ljósmynd/Fang­els­is­málastofnun Nevada

90 milljóna króna aftaka

Til stóð að taka hann af lífi klukkan átta síðdegis í gærkvöldi. Hann hefði þá verið fyrsti maðurinn til að vera tekinn af lífi í ríkinu síðan 2006 og fengið þann vafasama heiður að vígja nýjan aftökuklefa ríkisins, sem var lokið við árið 2016. Klefinn kostaði 860.000 bandaríkjadali í uppsetningu, um 90 milljónir króna.

Lyfið sem Alvogen framleiðir, Midazolam, er róandi en við aftökuna átti að nota það auk ópíóíða-lyfsins Fentanyl, sem er kvalastillandi, og Cisatracurium Besylate sem lamar þann sem fær lyfið og dregur til dauða. Þessi lyfjakokteill hefur aldrei verið notaður til aftöku og hafa Mannréttindasamtök Bandaríkjanna (American Civil Liberty Union, ACLU) áhyggjur af því að fanginn geti kafnað og dáið kvalafullum dauða.

Ein helsta ástæðan fyrir því að aftökum hefur fækkað í Bandaríkjunum undanfarin ár er hversu erfitt það er að útvega lyf til að nota við aftökur enda vilja flest lyfjafyrirtæki ekki að lyf þeirra séu notuð til þess að deyða fólk. Yfirvöld eru því sífellt á höttunum eftir nýjum aðferðum við að taka glæpamenn af lífi.

Fyrir nokkrum árum kvaldist fangi í Ohio-ríki í Bandaríkjunum í 26 mínútur við aftöku áður en hann dó, en þá voru yfirvöld einmitt í tilraunastarfsemi með ný lyf.

Misnotkun á Fentanyl hefur dregið þúsundir til dauða í Bandaríkjunum og er einnig völd að dauða á Íslandi. Hefur ríkisstjóri Nevada, repúblikaninn Brian Sandoval, talað um hamfarir vegna ópíóða-faraldurs í ríkinu.

Höfuðstöðvar Alvogen.
Höfuðstöðvar Alvogen. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert