Enginn sleppur við rigningu um helgina

Annað kvöld verður varla þurr blettur á landinu.
Annað kvöld verður varla þurr blettur á landinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að ætli fólk sér í ferðalag um helgina verði það að fara þangað sem það langar en vera viðbúið því að þurfa að vera í pollagallanum megnið af helginni.

„Það verður ekki mjög spennandi kostur að vera í tjaldi annað kvöld og aðra nótt, ekki neins staðar,“ segir Óli Þór í samtali við mbl.is. „Það er að koma svolítil lægð upp að landinu á morgun. Það byrjar að rigna í fyrramálið en annað kvöld þá bætir verulega í úrkomuna. Það er mjög hægur vindur svo sem víðast hvar en það verður hins vegar ansi blautt.“

„Það byrjar hérna á Suður- og Vesturlandi, einhvern tíma seinni partinn eða undir kvöld, og verður fram yfir miðnætti. Þá dregur mikið úr henni en svo fer þetta áfram yfir landið svo það sleppur enginn.“

Fellibylurinn hefur áhrif um land allt

Laugardaginn segir Óli Þór verða býsna einsleitan á landinu öllu, meira og minna þurrt en hvergi háar hitatölur. Á laugardagskvöld nálgast svo leifarnar af fellibylnum Chris. „Hann verður nú ekkert merkilegur. Það er bara austlæg átt, strekkingsvindur í honum sums staðar og þessi hefðbundna rigning. Þegar skil koma upp að landinu rignir úr þessu um tíma og það verður svo sem enginn einn landshluti betri en annar hvað það varðar.“

„Ef fólk á að fara eitthvað þá bara fer það þangað sem það langar til að fara en verður viðbúið því að þurfa að vera í pollagallanum megnið af helginni. Það er enginn einn staður sem stendur þannig upp úr. Það eru allir staðir sem fá rigningu á einhverjum tímapunkti. Ef eitthvað er þá eru norðanverðir Vestfirðir kannski einna svalastir af þessu, en að öðru leyti er þetta allt saman býsna einsleitt.“

Eftir helgi segir Óli Þór að veður eigi að skána. Úrkoma verði að mestu bundin við Austurland á mánudag og að þriðjudagurinn líti býsna vel út. Á miðvikudag þykknar svo aftur upp, að sögn Óla Þórs, mögulega með einhverri vætu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert