Geðveikt bingó í kjallaranum

Kristín Hulda Gísladóttir, formaður Hugrúnar, og Sonja Björg Jóhannsdóttir, markaðsstýra …
Kristín Hulda Gísladóttir, formaður Hugrúnar, og Sonja Björg Jóhannsdóttir, markaðsstýra Hugrúnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geðfræðslufélagið Hugrún stendur fyrir bingói í Stúdentakjallaranum klukkan 20 í kvöld til styrktar störfum félagsins við fræðslu ungmenna um geðheilsu, geðraskanir og úrræði sem standa ungu fólki til boða.

Félagið var stofnað árið 2016 af nemendum á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og heldur það fjölmarga fyrirlestra um geðheilbrigði fyrir nýnema í framhaldsskólum á hverju skólaári.

Spjöldin seldust upp í fyrra

Svokallað „geðveikt bingó“ er nú haldið þriðja sumarið í röð og hefur það fengið gríðarlega góðar undirtekir síðustu tvö skiptin, segir Kristín Hulda Gísladóttir, formaður Hugrúnar, í samtali við Morgunblaðið. Hefur jafnan verið fullt hús af fólki í Stúdentakjallaranum þegar fjáröflunarbingóið er haldið. „Við lentum í því í fyrra að þurfa að sækja fleiri bingóspjöld með hraði vegna þess að þau spjöld, sem við vorum með, seldust upp,“ segir Kristín til marks um þátttökuna.

Ferðast í skóla um allt land

Yfir 80 háskólanemar tóku þátt í fræðslustarfi Hugrúnar á síðasta starfsári, en félagið reynir að halda fyrirlestra í öllum framhaldsskólum landsins og voru einungis örfáir skólar sem ekki náðist að heimsækja á liðnu skólaári. Það gefur því auga leið að ferðakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn.

Félagið þróar fræðsluefni sitt fyrir skóla í samvinnu við fagaðila og eru sumurin notuð til að breyta og bæta efnið hverju sinni. „Eins og núna í sumar erum við aðeins að breyta áherslum, t.d. erum við að auka umfjöllun okkar um kvíða og þunglyndi vegna þess að þörfin er mest þar,“ segir Kristín. Aðspurð segir hún það koma sér og öðrum sífellt á óvart hvað framhaldsskólanemar í dag eru með opið hugarfar og eru tilbúnir til að ræða erfið mál sem varða geðheilbrigði.

Telur hún ungu kynslóðina vera í fararbroddi hvað varðar breytingu á þjóðfélagsumræðu um geðvandamál. „Þau vita að það á að vera sjálfsagt mál að leita sér aðstoðar hvort sem það er hjá fagaðilum eða vinum. Það eitt og sér er mjög stór hluti, þ.e. að fólk sé reiðubúnara nú en áður til að ræða geðheilbrigðismál við aðra í kringum sig,“ segir Kristín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert