Sjúklingar bera kostnað vegna innköllunar

Lyfjastofnun hefur að eigin frumkvæði sett í gang vinnu við …
Lyfjastofnun hefur að eigin frumkvæði sett í gang vinnu við að finna lausn á þessum málum. mbl.is/Hjörtur

Lyfsölum hérlendis er óheimilt lögum samkvæmt að taka við áður útgefnum lyfjum, jafnvel þrátt fyrir að lyfin hafi verið innkölluð. Neytendur geta því sem sakir standa almennt ekki fengið lyf endurgreidd, þrátt fyrir mælt sé gegn sölu þeirra.

Það eru því sjúklingar sem sitja uppi með kostnaðinn, kjósi þeir að nota ekki lyf sem hafa verið innkölluð af Lyfjastofnun, en þess ber að geta að stundum eru lyf einungis innkölluð frá lyfsölum, en sjúklingum ekki gert að skila þeim inn eða hætta notkun þeirra.

Kona nokkur hafði samband við ritstjórn mbl.is til að vekja athygli á þessari stöðu, en hún hafði reynt að skila inn lyfi sem Lyfjastofnun innkallaði nýlega, eftir að hafa leitað til læknis og fengið annað lyf við kvillum sínum. Hún baðst undan viðtali, en lyfið sem um ræðir inniheldur virka efnið valsartan.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is vegna þessa segir Jana Rós Reynisdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar Lyfjastofnunar, að stofnunin komi ekki að greiðslumálum lyfja en vilji samt „reyna að leggja sitt af mörkum til að kanna hvað er hægt að gera“.

Stofnunin hefur að eigin frumkvæði sett í gang vinnu við að finna lausn á þessum málum, segir Jana Rós.

„Vegna þess hversu hátt flækjustigið er, t.d. vegna þrepaskiptingar í greiðsluþátttöku, er sem stendur engin lausn uppi á borðinu. Áfram verður unnið að því að finna lausn hið fyrsta,“ segir í svarinu frá Lyfjastofnun.

Endurgreiðsla lyfja vandasöm

„Okkur er óheimilt að taka lyf til baka sem hafa verið seld, samkvæmt lögum og reglugerðum Lyfjastofnunar um það. Við megum ekki taka lyf sem hafa farið út úr apóteki til baka, nema til eyðingar,“ segir Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju.

Hann segist kannast við að neytendur hafi reynt að fá lyf með virka efninu valsartan endurgreidd að undanförnu, en bendir á að ef apótek endurgreiddu seld lyf myndi það mögulega skekkja stöðu einstaklinga innan kerfis Sjúkratrygginga Íslands, sem niðurgreiðir lyf að hluta.

„Það gæti þá þurft að fara að draga eitthvað af honum til baka og svo framvegis, svo það er svolítið flækjustig í þessu.“

Á að vera í lagi að nota lyfin

Innköllunin sem um ræðir náði einungis til apóteka. Sjúklingum á að vera óhætt að nota lyf af þessu tagi sem þeir hafa þegar keypt, en í tilkynningu Lyfjastofnunar um innköllunina var tekið fram að ekki væri bráð hætta á ferðum og að enn sem komið væru engar vísbendingar um að mengunin sem orsakaði innköllunina hefði haft áhrif á heilsu þeirra sem notað hafa lyfin.

Mengunin sem uppgötvaðist í umræddum lyfjum er efni sem við langtímanotkun gæti aukið hættu á krabbameini lítils háttar, samkvæmt tilkynningu Lyfjastofnunar.

„Við eigum að skila öllu til heildsalans, en þetta er ekki innkallað frá sjúklingi. Fólk má klára þær birgðir sem það er með. Þú mátt klára skammtinn þinn,“ segir Sigurbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert