Niðurstaðan kemur Degi á óvart

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að borgin muni fara yfir …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að borgin muni fara yfir úrskurð kærunefndar jafnréttismála sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög voru brotin við ráðningu borgarlögmanns í fyrra. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála á ráðningarferli borgarlögmanns í fyrra koma á óvart í ljósi þess að undanfarna áratugi hafi verið lagður sérstakur metnaður í vandað og gagnsætt ráðningarferli þegar ráðið er í æðstu stöður á vegum Reykjavíkurborgar.

Ebba Schram var ráðin borgarlögmaður í ágúst í fyrra en Ástráður Haraldsson kærði ráðning­una og taldi hana brot á jafn­rétt­is­lög­um enda væri hann hæf­ari til að gegna starf­inu. Kær­u­nefnd­in komst að þeirri niður­stöðu 2. júlí að svo væri. Ástráður og Ebba eru bæði hæsta­rétt­ar­lög­menn.

„Við munum að sjálfsögðu fara yfir þennan úrskurð og meta hvort við þurfum að breyta einhverju hjá okkur varðandi ráðningarferla,“ er haft eftir Degi í tilkynningu frá borginni. Dagur sat sjálfur í ráðningarnefndinni og hefur hann haft þann háttinn á þegar um er að ræða æðstu stöður innan borgarkerfisins.

Segir Ebbu hæfari samkvæmt heildarhæfnismati

Dagur segir kærunefndina vera í meginatriðum sammála mati og matsþáttum ráðningarnefndarinnar, en geri hins vegar mun meira úr vægi málflutningsreynslu og segir hann að það virðist ráða úrslitum þegar niðurstaða nefndarinnar er lesin. „Mat ráðningarnefndarinnar, byggt á þeim kröfum sem gerðar voru, var hins vegar að horfa einnig til annarra þátta, þar sem sú sem fékk stöðuna var sterkari, einnig að mati kærunefndarinnar, sem voru verkefni sveitarfélaga og sveitarstjórnarréttur. Við þetta bætist svo að ráðningarnefndin tók viðtöl við umsækjendur sem kærunefndin gerði ekki en eins og eðlilegt er hefur frammistaða í viðtali þýðingu við ákvörðun um ráðningu,“ er haft eftir Degi.

Hann segir jafnframt að valið hafi staðið á milli tveggja mjög hæfra umsækjenda. „Eins og málið lá fyrir borgarráði var skýrt að sú sem fyrir valinu varð var hæfari samkvæmt heildar hæfnismati og því hefði það brotið í bága við jafnréttislög að ganga fram hjá henni. Fyrir liggur af þessari niðurstöðu að kærunefnd jafnréttismála er því ósammála og metur tvo hæfnisþætti í heildarmatinu með öðrum hætti en ráðningarnefndin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert