Refsingu frestað vegna galla í rannsókn

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Ung kona var í vikunni sakfelld fyrir líkamsárás á aðra konu sem átti sér stað á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur í mars árið 2015. Ákvörðun refsingar var frestað vegna þess að „verulegur óútskýrður dráttur varð á rannsókn málsins, sem er hvorki flókið né umfangsmikið,“ segir í dóminum. Refsing fellur niður að tveimur árum liðnum haldi konan almennt skilorð.

Í ákæru kemur fram konan hafi ráðist á fórnarlambið með því að rífa í hár hennar og draga hana þannig niður í gólfið þar sem hún veittist að henni með því að slá og sparka í höfuð hennar og háls.

Fórnarlambið missti meðvitund, hlaut mar á vinstra heilahveli, brot á málbeini, einkenni heilahristings og sár í andliti og á hné. Hún krafðist tæplega 700 þúsund króna í miska- og þjáningabætur.

Fyrir dómi kannaðist ákærða ekki við að hafa verið á skemmtistaðnum kvöldið þegar árásin átti sér stað. Hún kvaðst hafa verið heima hjá sér með kærasta sínum.

Kærastinn staðfesti þá frásögn konunnar þrátt fyrir að sá vitnisburður hafi stangast á við fyrri vitnisburð hans við skýrslutöku hjá lögreglu og að vitni hafi séð þau yfirgefa skemmtistaðinn umrætt kvöld. Hann kannaðist við að hafa verið í neyslu á þeim tíma sem árásin átti sér stað. Framburður þeirra var ekki metinn trúverðugur.

Vegna misræmis í framburði vitna fyrir dómi og skorts á sönnunargögnum vegna galla í rannsókn lögreglu þótti ekki sannað að konan hafi veist að brotaþola með spörkum og höggum meðan hún lá í gólfinu. Hún var því ekki sakfelld fyrir þann hluta ákærunnar en var fundin sakfelld fyrir minniháttar líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert