Segir ómögulegt að ruglast á tegundunum

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. mbl.is/Ómar

„Þegar hvalurinn syndir í sjónum þá er hann eins og langreyður, svo segja þeir mér þarna á hvalbátnum. Steypireyður er allt öðruvísi, þú sérð strax muninn,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., um hvalinn sem landað var í Hvalfirði aðfaranótt sunnudags og hefur vakið heimsathygli. „Steypireyður er blá yfirlitum, enda heitir hann ‚blue whale‘ á ensku.“

Eftir að dýraverndunarsamtökin Hard To Port vöktu athygli á að um sjaldgæfan blendingshval gæti verið að ræða hafa spekingar um heim allan velt fyrir sér hvort að hvalurinn sé í raun steypireyður.

Dýraverndunarsamtökin Hard To Port telja Hval hf. hafa veitt sjaldgæfan …
Dýraverndunarsamtökin Hard To Port telja Hval hf. hafa veitt sjaldgæfan blendingshval. Ljósmynd/Hard To Port

Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um málið í dag og í umfjöllun BBC kemur fram í máli nokkurra sérfræðinga að þeir séu vissir um að steypireyði sé að ræða. „Að ruglast á steypireyði og langreyði er ómögulegt,“ segir Kristján í samtali við bresku fréttastofuna og segist handviss um að blendingshval, afkvæmi steypireyðar og langreyðar, sé að ræða.

„Við sjáum mikið af þeim, þó nokkra nú þegar og meira þegar fer að líða á sumarið. Þeir blása, við sjáum þá í fjarska og keyrum svo að þeim. Þegar við komum nær sjáum við að þetta er steypireyður og látum hann vera og förum að leita að langreyði. Þetta er  búið að vera svona alveg síðan þeir voru friðaðir hér við land 1959. Við höfum aldrei veitt steypireyði síðan,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni mbl.is.

Segja veiðar á blendingshvölum á gráu svæði

Aðspurður segist Kristján halda að Hvalur hf. hafi veitt fimm blendingshvali, þann fyrsta árið 1987. Sjálfur hefur hann séð einn eða tvo og segir þann sem landað var nú um helgina keimlíkan.

Í frétt BBC af málinu segir að blendingshvalir séu afar sjaldgæfir og að veiðar á þeim séu á „gráu svæði“ og gefi veiðimönnum möguleikann á að afsaka sig með því að segjast hafa gert mistök.

Um fjölmiðlaathyglina sem málið hefur hlotið segir Kristján þetta minna á hjarðhegðun og spyr sig hvort ekki sé gúrkutíð. „Við höfum fengið þessa fimm áður og svo fáum við allt í einu þennan eina, þá fer allt á annan endann.“

Kristján segir fjölmörg sýni tekin úr hverjum hval sem eru síðan rannsökuð yfir veturinn. Hann segir DNA-mengi blendingshvalanna augljóslega frábrugðin steypireyðum og langreyðum. Í einum blendingshval hafi fundist fóstur, sem sé afar óvenjulegt enda séu blendingstegundir venjulega ófrjóar. „Það var rannsakað mjög vel og þótti mjög merkilegt.“

Kristján Þór hefur sagt að sér þyki ekki ástæða til …
Kristján Þór hefur sagt að sér þyki ekki ástæða til að endurskoða hvalveiðar Íslendinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði við BBC að þrátt fyrir að við fyrstu skoðanir líti ekki út fyrir að um steypireyði sé að ræða taki stjórnvöld málið mjög alvarlega. Hann segist að svo stöddu ekki geta staðfest tegund hvalsins, en að talið sé líklegt að um blending sé að ræða. DNA-próf muni skera úr um það og segir Kristján Þór að framkvæmd þess verði flýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert