Sex mánuðir fyrir fíkniefnabrot

AFP

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Vestfjarða dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í vikunni fyrir fíkniefnaræktun og akstur bifreiðar ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu á kannabis. Maðurinn var jafnframt sviptur ökuréttindum ævilangt, fíkniefni gerð upptæk sem og tæki og tól sem lögreglan haldlagði á heimili hans.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að lögreglan hafi stöðvað för hans á Hólmavík á laugardagskvöldi í desember. Í blóðsýni mældist  2,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínól (virka efnið í kannabis) en samkvæmt reglum dómstólasýslunnar flokkast 2 ng/ml í blóði eða meira sem mikið magn. Á þessum tíma var hann sviptur ökuréttindum. 

Maðurinn neitaði í kjölfar handtökunnar að láta lögreglu í té þvagsýni og neitaði þannig að veita lögreglu atbeina sinn við rannsókn á ætluðu broti hans fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. 

Í mars var hann síðan stöðvaður í Sólheimum í Reykjavík og var hann þá bæði undir áhrifum áfengis og kannabis undir stýri. Jafnframt var hann próflaus á þessum tíma. 

Í janúar var gerð húsleit á heimili mannsins og fundust á þriðja tug plantna þar. Hann var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið að ræktun allt að 29 kannabisplantna, í sölu- og hagnaðarskyni, á heimili sínu um nokkurt skeið og fram til 10. janúar 2018 er lögregla fann 18 þeirra (alls 14.386,25 grömm) við húsleit, en 11 þeirra hafði ákærði áður skorið niður og er afrakstur þeirra sem hér segir: 965,22 grömm af maríjúana, 2.305,94 grömm af kannabisstönglum og 1.104,97 grömm af kannabislaufum.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði var maðurinn dæmdur í  30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, árið 2016. Með brotum sínum nú rauf hann skilorð þess dóms og er sá dómur því tekinn með í refsingu núna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert