Sjóða neysluvatn næstu þrjár vikur

Íbúar á Borðeyri gætu þurft að bíða í allt að …
Íbúar á Borðeyri gætu þurft að bíða í allt að þrjár vikur eftir drykkjarhæfu neysluvatni. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúar á Borðeyri í Hrútafirði gætu þurft að sjóða neysluvatn í allt að 3 vikur til viðbótar segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, í samtali við blaðamann mbl.is. Beðið er eftir niðurstöðum úr seinustu sýnatöku úr neysluvatninu sem verður grundvöllur að lagfæringum að sögn hennar.

Frá byrjun júní hafa íbúar Borðeyrar þurft að sjóða allt neysluvatn eftir að fundust saurgerlar í vatninu og er talið að yfirborðsvatn hafi blandast við neysluvatnið. RÚV sagði fyrst frá málinu.

Ekki er ljóst hvernig yfirborðsvatn kemst í neysluvatnið að svo stöddu. „Þetta kemur í ljós á föstudaginn, þá getum við upplýst íbúana hversu lengi þetta mun vara,“ segir Guðný.

Áður var talið að niðurstaða hefði verið fengin hvað varðar orsökin, en síðar kom í ljós að yfirborðsvatn væri að komast í neysluvatnið víðar en áður var talið. „Við héldum að við værum búin að komast yfir þetta, þannig að við erum bara að skoða það núna hvernig er best að bregðast við,“ segir sveitarstjórinn.

Guðný segir að stefnt sé að koma af stað lagfæringum um leið og vitað er hvaðan yfirborðsvatn ratar í neysluvatnið.

Borðeyri
Borðeyri Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert