Sólarleysið það óvenjulegasta

Þetta er ekki mynd síðan í sumar svo mikið er …
Þetta er ekki mynd síðan í sumar svo mikið er víst. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sólarleysið á Suðvesturlandi er það óvenjulegasta við þessar fyrstu tólf vikur sumarmisseris, skrifar Trausti Jónsson veðurfræðingur á veðurblogg sitt, Hungurdiskar. 104 ár eru síðan sólarstundirnar voru síðast svo fáar. Úrkoman hefur einnig verið óvenjumikil.

Líkt og Trausti bendir á hefur sumarið verið svalt og sólarlítið sunnanlands og vestan, en því betra sem austar dregur á landinu. Hitinn í Reykjavík er með lægra móti, var að vísu enn lægri 2015 heldur en nú.

Sólskinsstundir í Reykjavík - eða réttara sagt skortur á þeim …
Sólskinsstundir í Reykjavík - eða réttara sagt skortur á þeim í ár. Blogg Trausta Jónssonar

„Austur á Dalatanga er þetta hins vegar hlýjasta sumarbyrjun í að minnsta kosti 70 ár, en á Egilsstöðum var hún ámóta hlý og nú árið 2014. Hún er líka með hlýrra móti á Akureyri, en þar má þó finna nokkur dæmi um hærri hita á sama tíma - síðast 2014, og árið 2016 var hann svipaður og nú.

En það er sólarleysið á Suðvesturlandi sem er óvenjulegast.

Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 294,6 frá sumardeginum fyrsta, nánast það sama og á sama tíma árið 1914 (287,8 þá), árið áður 1913 voru stundirnar litlu fleiri, en annars eru þessar tölur langt fyrir neðan það minnsta sem annars hefur frést af - með nokkrum ólíkindum satt best að segja. Ólíkindin voru þó ámóta mikil í hina áttina fyrir aðeins sex árum, 2012. Þá mældust 767,9 stundir á sama tíma árs í Reykjavík og 1924 740,9 stundir. 

Hvort lágmarkið í ár er upphaf nýrrar tísku skal ósagt látið - og við getur heldur ekkert sagt af viti um hinar miklu sveiflur undanfarin ár,“ segir í bloggi Trausta

Gulleitir litir sýna svæði þar sem úrkoma hefur verið undir …
Gulleitir litir sýna svæði þar sem úrkoma hefur verið undir meðallagi í maí og júní, en grænir og uppí bláa liti þau svæði þar sem úrkoma hefur verið yfir meðallagi. Veðurstofa Íslands

Leifar Chris á leiðinni til landsins

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram  að úrkoma hefur verið óvenjumikil um suðvestanvert landið í maí og júní. Birt er á vefnum mynd sem  sýnir uppsafnaða úrkomu í Harmonie veðurspálíkani Veðurstofu Íslands fyrir maí og júní mánuð.

Gulleitir litir sýna svæði þar sem úrkoma hefur verið undir meðallagi í maí og júní, en grænir og uppí bláa liti þau svæði þar sem úrkoma hefur verið yfir meðallagi. 

„Í dag má búast við skýjaðu veðri og sums staðar þokulofti á vestanverðu landinu en skýjað með köflum austanlands. Rigning seint í nótt vestanlands en styttir að mestu upp undir hádegi á morgun en það varir ekki lengi því búist er við austan 5-13 annað kvöld með hellirigningu á sunnanverðu landinu. Rigningin færist norður yfir heiðar um nóttina en styttir smám saman upp sunnanlands.

Leifarnar af fellbylnum Chris koma upp að landinu aðfaranótt sunnudags og verður rigning í öllum landshlutum á sunnudag. Það er þó bót í máli að líklega verður ekki mikill vindur með úrkomunni. Rigning norðanlands mánudag en von er um hæðarhrygg á þriðjudag með björtu veðri um mest allt land. Hryggilegast þó við þennan hrygg er að hann stendur stutt við og enn ein lægðin er væntanleg á miðvikudag. Áfram verða mestu hlýindin á Austur- og Norðausturlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert