Stendur hryggilega stutt við

Fellibylurinn Chris.
Fellibylurinn Chris. AFP

Leifarnar af fellbylnum Chris koma upp að landinu aðfaranótt sunnudags og verður rigning í öllum landshlutum á sunnudag. „Það er þó bót í máli að líklega verður ekki mikill vindur með úrkomunni. Rigning norðanlands mánudag en von er um hæðarhrygg á þriðjudag með björtu veðri um mest allt land. Hryggilegast þó við þennan hrygg er að hann stendur stutt við og enn ein lægðin er væntanleg á miðvikudag. Áfram verða mestu hlýindin á Austur- og Norðausturlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Í dag má búast við skýjuðu veðri og sums staðar þokulofti á vestanverðu landinu en skýjuðu með köflum austanlands. Rigning seint í nótt vestanlands en styttir að mestu upp undir hádegi á morgun en það varir ekki lengi því búist er við austan 5-13 annað kvöld með hellirigningu á sunnanverðu landinu. Rigningin færist norður yfir heiðar um nóttina en styttir smám saman upp sunnanlands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Fremur hæg suðvestlæg átt og lágskýjað en úrkomulítið um landið vestanvert, en bjartviðri með köflum austanlands. Suðaustan 5-13 og rigning seint í nótt vestanlands en úrkomuminna undir hádegi á morgun. Áfram bjartviðri austanlands. Austlæg átt, 5-13 og talsverð eða mikil rigning á sunnanverðu landinu annað kvöld.
Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á föstudag:

Suðaustan 5-13 m/s. Rigning eða súld S- og V-lands og talsverð eða mikil þar um kvöldið. Þurrt NA-til. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast norðaustanlands. 

Á laugardag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-10, og víða vætusamt árdegis, en síðan mun úrkomuminna. Rigning sunnanlands um nóttina. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast á Austurlandi. 

Á sunnudag:
Austlæg og síðar breytileg átt með vætu um mest allt land, einkum norðvestan til. Hiti 8 til 20 stig, svalast á N-verðum Vestfjörðum. 

Á mánudag:
Norðan og norðvestan 3-10 og rigning um N- og V-vert landið. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast sunnanlands. 

Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt með bjartviðri um mestallt land. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast V-lands. 

Á miðvikudag:
Suðaustan átt og rigning S-lands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast NA-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert