Telur hvalinn vera steypireyði

Adam A. Peck telur að hvalurinn sem veiddist aðfaranótt sunnudags …
Adam A. Peck telur að hvalurinn sem veiddist aðfaranótt sunnudags sé steypireyður frekar en blendingshvalur. Ljósmynd/Hard To Port

Adam A. Peck, líffræðiprófessor við Háskólann á Hawaii, segist í samtali við CNN telja að hvalurinn sem veiðimenn Hvals hf. veiddu aðfaranótt sunnudags sé steypireyður en ekki blendingshvalur, það er afkvæmi langreyðar og steypireyðar.

Á vef CNN kemur fram að tilgátur um að hvalurinn sé blendingur hafi verið á kreiki en að Peck taki ekki undir þær þar sem flest útlitseinkenni hvalsins að hans mati svipi til steypireyðar. Tekið er fram í fréttinni að Peck byggi mat sitt á myndum sem hann hafi séð af hræi dýrsins.

Gísli Arnór Víkingsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, telur þó enn að um blendingshval sé að ræða þó að ekki verði úr því skorið fyrr en DNA-sýni úr hvalnum hefur verið rannsakað. Þá bendir Gísli á að þó að hvalurinn hafi mörg einkenni steypireyðar sé hann frekar líkur þeim blendingshvölum sem landað hefur verið hérlendis áður. Einnig beri hvalurinn ákveðin einkenni langreyðar.

Uppgötvað á níunda áratugnum

Afkvæmi steypireyðar og langreyðar var fyrst uppgötvað við Íslandsstrendur á níunda áratug síðustu aldar. Gísli segir það því mögulegt að Peck hafi ekki séð slíkan blending áður og haldi þar af leiðandi að um steypireyði sé að ræða.

Veiðar á steypireyðum eru ólöglegar við Íslandsstrendur sem og annars staðar. Einungis veiðar á hrefnum og langreyðum eru leyfilegar við Ísland. Gísli segir veiðar á blendingshvölum þó ekki vera ólöglegar þar sem ekki sé um raunverulega hvalstegund að ræða. „Blendingar eru ekki tegund og eru hvergi í lögum. Þetta eru bara frávik í náttúrunni.“

Gísli segir það vera möguleika að DNA-sýni hvalsins komist fyrr til rannsóknar en með sýnum annarra veiddra hvala í haust. Hann segir það þó eiga eftir að koma í ljós og þá einnig hvenær hægt verði að koma rannsókninni af stað. Þá vonar Gísli að þetta skýrist betur í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert