Bókaútgáfa styrkt í tilefni fullveldisafmælis

Verkin tvö sem um ræðir munu fjalla um Þingvelli í …
Verkin tvö sem um ræðir munu fjalla um Þingvelli í íslenskri myndlist og sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisnefnd Alþingis hefur lagt fram þingsályktunartillögu um samstarf við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

Þingsályktunartillagan verður afgreidd er þing kemur saman næsta þriðjudag og má fastlega gera ráð fyrir því að hún verði samþykkt í góðri sátt.

Verkin tvö sem um ræðir munu fjalla um Þingvelli í íslenskri myndlist og sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að verkið um Þingvelli hafi verið lengi í undirbúningi og að mikið starf hafi þegar verið unnið.

„Að því er stefnt að niðurstaðan verði vegleg bók um einn mikilvægasta stað Íslands sem gegnir sérstöku hlutverki í sögu og menningu lýðveldisins og Alþingis Íslendinga sérstaklega,“ segir um hið væntanlega rit.

Ritið um sögu íslenskra bókmennta yrði um 900 blaðsíður í tveimur bindum og höfundar yrðu sérfræðingar í bókmenntasögu við Háskóla Íslands. Í greinargerð segir að verkinu yrði sérstaklega beint að lesendum 21. aldar, einkum háskólastúdentum. Gert er ráð fyrir útgáfu árið 2021.

Í þingsályktunartillögu segir að áætla megi að kostnaðurinn við undirbúning og útgáfu þessara tveggja verka muni nema samtals um 25–30 millj. kr. og að skipta megi þeim kostnaði á þrjú ár, 2019–2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert