Fyrstu íslensku kartöflurnar komnar í búð

Þessar kartöflur eru komnar í Nettó á Hornafirði.
Þessar kartöflur eru komnar í Nettó á Hornafirði. Ljósmynd/Oddleifur Eiríksson

„Fyrstu kartöflurnar fóru í verslun Nettó hér á Hornafirði í dag,“ segir Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum í Hornafirði, en fyrsta kartöfluuppskera ársins kom í hús í morgun. „Ég reikna með að geta sent eitthvað í bæinn strax eftir helgi.“

Hjalti segir þessa fyrstu uppskeru ársins heldur seinni en hefur verið. „Þetta er kannski ekki óvenjuseint, það má segja að við höfum stundum getað verið óvenjusnemma.“

Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum í Hornafirði.
Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum í Hornafirði. Ljósmynd/Oddleifur Eiríksson

„Uppskeran leit ágætlega út. Þetta er úr reit sem ég gat sett niður í í apríl, sem kom ágætlega undan vetri. Þetta er náttúrulega bara premía, þessi fljótsprottna. Síðan kemur væntanlega gullauga eftir viku, tíu daga.“

Nokkur hundruð kíló voru tekin upp hjá Hjalta í morgun en hann er vanur að taka upp daglega. „Það fer svolítið eftir veðráttu hvernig það gengur að taka upp, það rignir mikið núna en ég held að við hljótum að komast í garðinn svona á milli skúra.“

„Framanaf var hér mjög votviðrasamt eins og á Suðurlandi en síðan hefur júní verið alveg þokkalegur hér í Hornafirðinum. Við höfum sloppið við mikla vætu undanfarið. Það hefur ræst vel úr.“

Hjalti tekur upp daglega og má búast við kartöflum víðar …
Hjalti tekur upp daglega og má búast við kartöflum víðar eftir helgi. Ljósmynd/Oddleifur Eiríksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert