Helstu hjólaleiðir fá litamerkingu

Eitt af fjölmörgum skiltum sem hafa verið sett upp víða …
Eitt af fjölmörgum skiltum sem hafa verið sett upp víða um borgina þar sem hjólaleiðirnar eru sýndar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Helstu hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið litakóða, en Reykjavíkurborg hefur lokið við að setja upp 149 hjólavegvísa ásamt merkingum víða um borgina. Er þetta hluti af hjólreiðaáætlun borgarinnar sem kveður á um að lykilleiðir séu litamerktar. Önnur sveitarfélög eru einnig að setja upp skilti fyrir þetta kerfi.

Lykilleiðirnar svokölluðu hafa einnig verið kallaðar stofnleiðir, aðalleiðir eða hraðleiðir, en þær eru í sérstökum forgangi þegar kemur að sópun á sumrin og mokstri og hálkuvörnum að vetri til. 

Um er að ræða fimm mismunandi leiðir sem nú hafa fengið litamerkingu. Leiðin meðfram strandlengjunni er blá, græna leiðin fer í gegnum Víðidal, Elliðaárdal, Öskjuhlíðina, Fossvog og endar í miðbæ Reykjavíkur. Rauða leiðin liggur frá Sæbraut, gegnum Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnafjarðar. Fjólubláa leiðin liggur frá Elliðavogi í gegnum Elliðaárdal, Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnarfjarðar. Gula leiðin liggur frá miðbæ Mosfellsbæjar í miðbæ Reykjavíkur um Elliðaárósa.

Hér má sjá lykilleiðirnar sem eru með litakóða og verða …
Hér má sjá lykilleiðirnar sem eru með litakóða og verða í forgangi við mokstur og sópun. Kort/Reykjavíkurborg
  • Blá: Strandleið
  • Græn: Reykjavík A – Reykjavík C
  • Rauð: Hafnarfjörður C – Garðabær C – Kópavogur C – RVK Borgartún
  • Fjólublá: Hafnarfjörður C – Garðabær A – Kópavogur A – RVK Mjódd
  • Gul: Mosfellsbær C – Reykjavík C

Á skiltunum er að finna þjónustumerki, þar sem það á við eins og tjaldstæði eða sundlaug. Þá eru skilti með pílum til að minnka líkur á að röng leið sé valin.

Gula leiðin liggur frá Mosfellsbæ og niður í miðbæ Reykjavíkur.
Gula leiðin liggur frá Mosfellsbæ og niður í miðbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að markmiðið með litamerktum lykilleiðum sé að bæta þjónustu við hjólreiðafólk, fjölga áfram þeim sem hjóla og hjálpa fólki að velja góða stíga á ferðum sínum, bæði íbúum og gestum.

Hægt er að lesa nánar um lykilleiðirnar og litakóðana á vefsíðu Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert