„Segja að ég lendi ekki aftur í svona ævintýri“

Arnór Maximilian lyfti 108 cm löngum hængnum sem tók flugu …
Arnór Maximilian lyfti 108 cm löngum hængnum sem tók flugu hans við Álftasker í Laxá í Aðaldal.

Arnór Maximilian Luckas átti sannkallaða draumavakt þegar hann var við laxveiðar ásamt föður sínum, Karli Udo, á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal í fyrrakvöld. Hann byrjaði á því að landa 101 cm hæng, sem tók fluguna í Þvottastreng, og bætti síðan um betur er hann setti í og landaði 108 cm hæng við Álftasker, stærsta laxinum sem veiðst hefur hér á landi í sumar.

Samkvæmt viðmiðunarkvörðum eru laxarnir um 22 og 28 pund – þegar miðað er við lbs-kvarðann, eða 20 og 26 veiðipund eins og algengt er að miða við í veiði hér á landi þar sem pundið er hálft kg.

„Þetta var ótrúlegt. Eftir á sátum við pabbi bara á bakkanum og skildum varla hvað hafði gerst,“ segir Arnór um reynsluna af því að landa 108 cm laxi.

Arnór segir ævintýrið hafa byrjað á vaktinni á undan þegar hann landaði 90 cm laxi sem tók flugu hans í Sandeyrarpolli – og það var stærsti lax sem hann hafði fengið. Snemma á seinni vaktinni í gær tók 101 cm laxinn síðan Metallica-flugu hans í miðjum Þvottastreng. „Hann tók bara upp úr þurru, við höfðum ekkert orðið varir við hann. Hann var erfiður, barðist rosalega. Um miðja orrustuna brunaði hann lengst niður í á og ég þurfti að strekkja og strekkja á hjólinu en hann dró nánast alla línuna út – en það gekk. Við náðum honum.“

Eftir að hafa jafnað sig eftir viðureignina reru feðgarnir út á Presthyl, að Álftaskeri.

„Pabbi hafði kastað mestallan tímann þar en svo tók ég við stönginni í hálfa mínútu. Hann benti og sagði: Kastaðu þarna, og ég kastaði Kolskeggs-túpu. Þá tók laxinn upp úr þurru, mjög djúpt en rétt við bátinn.“ Og stórlaxinn réð för, fór austur fyrir eyna og feðgarnir á eftir. „Þar klöngruðumst við uppúr bátnum og eftir að hafa þreytt laxinn tókst okkur að landa honum.“ Arnór segir að sér hafi þótt viðureignin ekki taka nema nokkrar sekúndur en faðir hans segir hana hafa varað í fimmtán til tuttugu mínútur. Og laxinn mældu þeir 108 cm langan.

„Ég var alveg gáttaður. Meðan við börðumst við hann sögðum við varla orð, hvísluðumst bara á, eins og hann myndi heyra í okkur. En þegar við höfðum sleppt laxinum hlógum við og þögðum til skiptis. Þetta var ótrúlegt. Pabbi var eiginlega ánægðari en ég! Í nótt dreymdi okkur svo báða að við værum að landa laxi.“

Arnór segist eiga eftir að lifa lengi á þessari einstöku lífsreynslu. „Allir segja að ég lendi ekki aftur í svona ævintýri.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert