Skýr merki um ókyrrð í Öræfajökli

Öræfajökull hefur þanist talsvert frá áramótum 2016-2017.
Öræfajökull hefur þanist talsvert frá áramótum 2016-2017. mbl.is/RAX

Skýr merki eru um ókyrrð í Öræfajökli, en samkvæmt almannavörnum hefur fjallið þanist talsvert út frá áramótum 2016 og 2017. Þenslunni fylgir aukin jarðskjálftavirkni og aflögun og engin merki eru um að hraði hennar fari minnkandi þrátt fyrir að jarðhitavirkni hafi minnkað frá desember 2017.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að orsök þenslunnar sé talin vera innskot nýrrar kviku í rótum eldstöðvarinnar, en rúmmálsbreyting síðan atburðarásin hófst eru 10 milljón rúmmetrar. Er það sambærilegt við kvikuinnskot í Eyjafjallajökli á árunum fyrir gosið 2010. Þá sýna nýjar viðnámsmælingar jarðhita á litlu dýpi í öskju Öræfajökuls sem er merki um tilvist háhitakerfis, svipað og sést í mörgum megineldstöðvum á Íslandi.

Almannavarnir meta mögulega þróun þannig að virkni Öræfajökuls sé nú dæmigerð fyrir eldfjöll sem búa sig undir eldgos. Þó gæti virknin hætt áður en til eldgoss kemur en ekkert er hægt að segja til um það að svo stöddu. Önnur möguleg afleiðing er aukin jarðhitavirkni sem gæti orsakað jökulhlaup og gasmengun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert