Þokkaleg spá fyrir Laugavegshlaup

Laugavegurinn er vinsælasta gönguleið landsins
Laugavegurinn er vinsælasta gönguleið landsins mbl.is/Rax

Þátttakendur í Laugavegshlaupinu sem fer fram á morgun mega búast við þokkalegu veðri og aðstæðum. Spáð er rigningu í upphafi hlaups í Landmannalaugum og á Hrafntinnuskeri en eftir því sem líður á hlaupið ætti að birta til.

Samkvæmt Önnu Lilju Sigurðardóttur, upplýsinga- og samskiptastjóra Íþróttabandalags Reykjavíkur, er snjór á Hrafntinnuskeri líkt og vanalega og krapi á einhverjum tímapunkti leiðarinnar. Anna segir það þó vera venjuna á þessu svæði og að hlaupararnir ættu að vera því vanir.

Þorbergur Ingi Jónsson á þrjá bestu tíma Laugavegshlaupsins.
Þorbergur Ingi Jónsson á þrjá bestu tíma Laugavegshlaupsins. Ljósmynd/Þórarinn Sigurbergsson

Anna segir morgundaginn leggjast vel í sig. „Við fengum nýja veðurspá í morgun sem er aðeins bjartari en þær sem við höfum verið að fá. Það verður smá sól í lokin og aðeins minni vindur þannig okkur lýst bara vel á þetta.“

Alls eru 555 keppendur skráðir í mótið að þessu sinni sem er metfjöldi. Þeirra á meðal er Þorbergur Ingi Jónsson sem á þrjá bestu tíma hlaupsins. Þorbergur kemur til með að hlaupa sitt fimmta Laugavegshlaup á morgun en hann sló tímametið árið 2015 þegar hann hljóp á 3 klukkustundum og 59 mínútum.

Auk Þorbergs eru tveir erlendir hlauparar, einn Svíi og einn Finni, sem þykja sigurstranglegir. „Okkur sýnist þeir vera bestir þó að maður viti náttúrulega aldrei.“ Anna segir að á morgun eigi ekki að vera jafn hvasst og var í fyrra og þar af leiðandi aldrei að vita hvort að tímametið verði slegið að nýju.

Hlaupið verður ræst í fyrramálið klukkan níu og gert er ráð fyrir því að fyrstu keppendur í karlaflokki detti í mark um klukkan eitt og fyrstu keppendur í kvennaflokki um klukkan tvö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert